Áður verið fyrirboði eldgoss

Frá orkuverinu í Svartsengi.
Frá orkuverinu í Svartsengi. mbl.is/Eyþór Árnason

Þrýstingsbreyting varð í borholu HS Orku á Svartsengi í morgun, en slíkt hefur áður verið talið fyrirboði eldgoss. Þetta segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, deildarstjóri viðskiptaþróunar HS Orku, í samtali við mbl.is.

Síðustu gos hafa hafist mjög skömmu eftir mælingar á þrýstingsbreytingu, en nú eru liðnir um fjórir tímar síðan breytingin varð og ekki bólar á gosi enn sem komið er, segir Jóhann.

Fyrr í dag var greint frá því að starfsfólk HS Orku í Svartsengi hefði verið sent heim í öryggisskyni vegna þessara breytinga. Jóhann segir að þetta hafi verið varúðarráðstöfun af hálfu fyrirtækisins vegna óvissu, þar sem öryggi starfsmanna gangi fyrir.

Svartsengi fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun

„Við erum enn að meta aðstæður, það eru margir sem vinna annars staðar frá og virkjuninni er fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun.“

Jóhann segir enga ákvörðun um framhaldið hafa verið tekna. Verið sé að funda og fylgjast með stöðunni. Engar frekari breytingar á þrýstingi borhola hafa mælst það sem af er degi.

Tíu til tuttugu mæta almennt á dagvakt

Símæling er á borholunum á Svartsengi sem gefur fyrirtækinu góða yfirsýn yfir stöðu mála. Mælirinn virkaði sem fyrirvari í þetta skiptið og mældi breytingar áður en starfsfólk var mætt til vinnu. Áður hafa breytingar mælst með skömmum fyrirvara og starfsfólk verið sent heim í snatri vegna öryggisráðstafana.

Ekki er mikil viðvera í orkuveri HS orku í Svartsengi um þessar mundir vegna gasmengunar. Þó eru á bilinu tíu til tuttugu manns sem mæta almennt á dagvakt þangað.

Skrifstofur fyrirtækisins voru áður í Svartsengi en hafa ekki verið þar síðan í nóvember á síðasta ári.

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert