Vill afnema eignaskatt og lækka skatta á helstu nauðsynjar

Davíð Oddsson forsætisráðherra boðaði skattalækkanir í ræðu sinni á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands í gær. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að fastmótuð áætlun um skattalækkun yrði lögð fram á næstu vikum en meðal þess sem þyrfti að huga að væri lækkun á beinum sköttum fólks, afnám eignaskatts og lækkun skatta á helstu nauðsynjar. Lækkanirnar muni koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili.

Raunhæfar væntingar

"Sterk staða ríkissjóðsins nú og tekjuaukinn sem sannarlega mun fylgja hagvextinum gerir það að verkum að það er engin goðgá að huga að breytingum á sköttum í rétta átt, til lækkunar, en ekki hækkunar," sagði Davíð á viðskiptaþinginu í gær.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Davíð að þó svo að ýmsir skattar hefðu verið lækkaðir undanfarið, s.s. hátekjuskattur, eignaskattur og tekjuskattur, þá væri staða ríkissjóðs nú svo sterk að ekki væri óeðlilegt að gera áætlun um hvernig lækka mætti skatta í áföngum á næsta kjörtímabili. "Ég tel að staðan sé orðin slík að það sé hægt að gefa raunhæfar væntingar um það. Og jafnframt tryggja sterka stöðu ríkissjóðs og möguleika okkar á því að halda hér uppi þeirri þjónustu og velferð sem við öll viljum," sagði Davíð.

Aðspurður hvaða skattar yrðu lækkaðir sagði Davíð að nákvæm áætlun um það yrði birt innan nokkurra vikna. Hann nefndi sem dæmi beina skatta fólks og um leið þyrfti að huga að persónuafslættinum. Einnig þyrfti að taka á erfðafjárskattinum sem væri gamaldags og sköttum á mestu nauðsynjar hverrar fjölskyldu. Þá mætti afnema eignaskattinn. "Það er þegar búið að minnka eignaskattinn um rúmlega helming og það er ekkert mál að afnema hann," sagði Davíð og bætti við að flestar þjóðir væru þegar búnar að því. "Ég held að það þurfi að skoða skattkerfið í heild sinni og sýna með fastmótaðri áætlun fram á hvernig hægt sé að gera skattkerfið öllum landsmönnum hagstæðara," sagði Davíð.

Í ræðu sinni á viðskiptaþingi gagnrýndi forsætisráðherra Seðlabanka Íslands og sagði hann hafa byrjað vaxtalækkunarferil sinn of seint. Það væri ein af ástæðunum fyrir því að gengi krónunnar væri óþarflega hátt. Lækkandi vextir myndu þó stuðla að betra jafnvægi í gengismálum þegar fram í sækir. Við þessar aðstæður hlyti ríkisstjórnin að velta því fyrir sér hvort hún geti breytt erlendum skuldum í innlendar skuldir.

"Alltof háir" vextir og óstöðugt gengi

Bogi Pálsson, formaður Verslunarráðs Íslands sagði í ræðu sinni að stjórnendur í íslensku atvinnulífi hefðu helst áhyggjur af stöðu gengis- og vaxtamála. Þar yrði að ná viðunandi jafnvægi. Vextir væru hér "alltof háir" sem skerti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja verulega og hin sterka staða krónunnar kæmi hart niður á útflutningsfyrirtækjum. Nauðsynlegt væri að lækka vexti enn frekar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert