Hefja viðræður um áframhaldandi stjórnarsamstarf

Formenn stjórnarflokkanna, þeir Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, munu í dag fara fram á það við nýkjörna þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þeir veiti þeim umboð til formlegra viðræðna um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Stjórnarflokkarnir héldu meirihluta sínum í alþingiskosningunum á laugardag, hlutu samtals 34 þingmenn af 63 og 51,4% atkvæða, en stjórnarandstaðan á þingi fékk 47,2% atkvæða.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust á fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu upp úr hádeginu í gær. Davíð sagði í samtali við Morgunblaðið að þar hefðu þeir farið stuttlega yfir málin. "Niðurstaðan varð sú að vegna úrslita kosninganna, þar sem ríkisstjórnin hélt velli með þetta traustum meirihluta, teldum við eðlilegt að við myndum leita eftir umboði til þess hjá þingflokkunum að hefja formlegar viðræður," segir Davíð. "Við fórum ekki yfir nein efnisatriði, enda rétt að fara formlega leið og heyra í okkar þingflokkum. Ég á von á að þeir muni samþykkja þessar tillögur og viðræður hefjist í framhaldinu. Svo verður að koma í ljós hvort menn ná saman um málefni eða aðra skipan mála. Það liggur að sjálfsögðu ekki á borðinu."

Halldór Ásgrímsson sagðist myndu leggja til við þingflokkinn að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Hins vegar væri ekkert hægt að segja meira um hvað viðræðurnar tækju langan tíma né um niðurstöðu þeirra.

Stjórn Framsóknar og Samfylkingar yrði afar veik

Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin eiga möguleika á að mynda ríkisstjórn með eins manns meirihluta. Halldór segir að Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, hafi hringt í hann í gær og þeir rætt almennt um niðurstöðu kosninganna og stöðu mála. "Ég skýrði honum frá því að ég og forsætisráðherra hefðum talað saman í dag [í gær]," segir Halldór. Um hugmyndir um stjórn með Samfylkingu segir Halldór: "Ég dreg enga dul á að slík ríkisstjórn yrði mjög veik."

Aðspurður hvort hann gangi á fund forseta Íslands í dag, að loknum kosningum, segir Davíð Oddsson engin efni vera til þess "að raska ró" forsetans. Stjórnarflokkarnir haldi velli og stefni að því að starfa saman.

Samfylking bætti við sig fjórum

Úrslit þingkosninganna urðu þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,7% atkvæða og 22 þingmenn kjörna, en fékk í kosningunum 1999 40,7% og 26 menn. Samfylkingin fékk 31% atkvæða og 20 þingmenn, hafði 26,8% og 16 menn. Framsóknarflokkurinn fékk 17,7% atkvæða og 12 þingmenn, hafði áður 18,4% og jafnmarga menn. Vinstrihreyfingin - grænt framboð fékk 8,8% atkvæða og fimm þingmenn, en hafði áður 9,1% og sex menn. Þá fékk Frjálslyndi flokkurinn 7,4% og fjóra menn, en hafði áður 4,2% og tvo þingmenn. Nýtt afl og sérframboð Kristjáns Pálssonar í Suðurkjördæmi náðu ekki mönnum á þing.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert