Bandaríkjamenn segja hvalveiðar líklega leiða til viðskiptaþvingana

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veiða 28 hrefnur í vísindaskyni hefur …
Ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veiða 28 hrefnur í vísindaskyni hefur vakið hörð viðbrögð og Bandaríkjastjórn segir að hún kunni að leiða til viðskiptaþvingana. mbl.is/Bæjarins besta

Philip Reeker, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir að komi til þess að Íslendingar veiði hvali í vísindaskyni muni það væntanlega leiða til þess að farið verði yfir vísindaáætlun Íslendinga með svonefnda staðfestingarkæru í huga og slík kæra gæti leitt til ýmissa aðgerða af hálfu Bandaríkjamanna, m.a. viðskiptaþvingana samkvæmt Pelly-ákvæðinu í bandarískum fiskverndarlögum sem kveður á um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem vanvirða samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins til verndar hvalastofnum.

„Þótt vísindaáætlun Íslendinga sé tæknileg lögleg og í samræmi við stofnsáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins, telja Bandaríkin að hvalveiðarnar sem þar er lagt til, séu ónauðsynlegar og hægt sé að afla þeirra gagna sem stefnt er að eftir öðrum leiðum," sagði Reeker í samtali við AFP fréttastofuna.

Pelly-ákvæðið er hluti af löggjöf sem samþykkt árið 1967 til að vernda fiskistofna. Bandaríkjaþing samþykkti þetta ákvæði árið 1978 og fjallar það um ráðstafanir til stuðnings alþjóðasamþykktum um verndun fiski- og hvalastofna. Samkvæmt því á viðskiptaráðherra að láta rannsaka hvort veiðar tiltekins ríkis grafi undan alþjóðasamþykktum og komist hann að þeirri niðurstöðu beri honum a staðfesta það við Bandaríkjaforseta.

Nokkru síðar samþykkti Bandaríkjaþing Packwood-ákvæðið, sem leggur bandaríska viðskiptaráðherranum þá skyldu á herðar að fylgjast með öllum veiðum sem gætu falið í sér brot á samningum og að hraða ákvörðunum sem varða slíkar veiðar. Bandaríkin áður hótað að beita þessum ákvæðum gegn Íslendingum þegar vísindaveiðar voru stundaðar í lok níunda áratugar síðustu aldar en til þess kom ekki vegna samkomulags sem íslensk og bandarísk stjórnvöld gerðu um þær veiðar. Einnig hafa Bandaríkjamenn hótað að beita ákvæðinu gegn Japönum vegna hvalveiða þeirra.

Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segist hins vegar í samtali við AFP ekki óttast neikvæð viðbrögð vegna væntanlegra hvalveiða. „Við teljum að fólk muni skilja þörfina á vísindalegum rannsóknum. Og slíkar veiðar eru óumdeildur réttur allra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þess vegna eru þær löglegar, alveg eins og hvalveiðar þriggja stærstu hvalveiðiþjóðanna, Bandaríkjanna, Japana og Norðmanna."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert