Akureyringar minntir á mikilvægi neysluvatns

Heilsueflingarátak hefst á Akureyri á föstudag sem ber yfirskriftina „Vatn er svalt“. Í fréttatilkynningu Heilsueflingarráðs segir að átakið standi til 1. ágúst. Markmiðið er að vekja athygli bæjarbúa á mikilvægi neysluvatns til heilsueflingar og nauðsyn þess að tryggja öllum aðgengi að góðu vatni. Auk þess er vakin athygli á mikilvægi vatnsins í atvinnulífinu.

Þá segir í tilkynningunni: „Þó vatn sé algengasta efnasambandið á jörðinni, hefur meirihluti jarðarbúa ekki aðgang að góðu drykkjarvatni. Um 60% líkamans er vatn og er okkur lífsnauðsynlegt að fá vatn á hverjum degi. Akureyringar þurfa ekki að óttast vatnsskort og geta drukkið hreint og ómengað vatn beint úr krananum. Hollast er að fá vökva án viðbótarefna og skipar hreint og ómengað vatn þar fyrsta sætið.

„Vatn er svalt“ er fyrsta verkefni nýstofnaðs heilsueflingarráðs, sem í eiga sæti fulltrúar félagsþjónustunnar, heilbrigðiskerfisins og atvinnulífsins. Eftirtaldir aðilar að verkefninu: Akureyrarbær, Norðurorka, Vífilfell, Brim og Strýta, rækjuvinnsla Samherja hf.

Átakið hefst með kynningu og dreifingu vatns á Glerártorgi föstudaginn 18. júní kl. 16:00. Þar að auki verður vatn á sérstöku kynningarverði í verslunum og matsölustöðum bæjarins á meðan átakinu stendur, segir loks í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert