Fischer fellst formlega á að verða sendur til Íslands

Bobby Fischer að setjast að tafli við Spasskí í hinu …
Bobby Fischer að setjast að tafli við Spasskí í hinu umdeilda einvígi í Júgóslavíu árið 1992. Reuters

Lögmenn Bobby Fishers hafa ákveðið að breyta kröfum í máli hans, í stað þess að hann neiti því eingöngu að verða vísað úr landi og framseldur til Bandaríkjanna fellst hann á að verða sendur til Íslands. Var þetta niðurstaðan eftir fund sem lögmenn hans áttu með dómurum í gær, að sögn John Bosnitch, ráðgjafa Fischers. „Við ákváðum að breyta tæknilegu atriði í kröfunni. Þótt hann hafi opinberlega lýst því yfir að hann vilji fara til Íslands kom það ekki fram í kröfunni sem sett var fram þegar hann var handtekinn í júlí. Þá var Ísland ekki komið inn í myndina. Á fundinum voru lögmennirnir að leita eftir ráðgjöf hjá dómurunum um hvernig best væri að bera sig að. Þeir ræddu stöðuna og þá staðreynd að Bobby Fischer er til í að fara til Íslands.“ Breytt krafa verður lögð fram 25. febrúar og 7. mars verður annar slíkur fundur haldinn.

„Við erum að reyna að komast að því hvort það að Fischer fái íslenskan ríkisborgararétt tryggi að hann fái að fara til Íslands. Við viljum vita hvort það muni binda endi á málið. Við reynum að finna bestu lausnina, viljum ekki að hann sitji aðra 6-7 mánuði í fangelsi og verði síðan framseldur til Bandaríkjanna. Það væri út í hött.“

Allsherjarnefnd Alþingis mun á fimmtudag ræða hvort veita eigi Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert