Fjármálaráðherra gagnrýnir yfirlýsingu Reykjavíkur um gjaldfrjálsan leikskóla

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, gagnrýndi á Alþingi í dag þá yfirlýsingu Reykjavíkurborgar um að stefnt sé að því að leikskólavist í borginni verði gjaldfrjáls innan nokkurra ára. Sagði Geir, að með þessari yfirlýsingu hefði verið komið í bakið á stjórnvöldum sem hefðu fallist á að veita fé úr ríkissjóði til að koma til móts við illa stæð sveitarfélög.

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, hvort skilja mætti yfirlýsingar borgarstjóra svo, að gert hafi verið samkomulag um að ríkið greiði með einhverjum hætti fyrir gjaldfrjálsan leikskóla í Reykjavíkurborg.

Geir H. Haarde svaraði, að þetta væri vægast sagt hið furðulegasta mál. Gert hefði verið samkomulag í tekjustofnanefnd um fullkomlega einhliða tilfærslu mikils fjármagns frá ríki til sveitarfélaga. Hugmyndin hefði verið sú, að þessum peningum væri varið til að mæta þörfum þeirra sveitarfélaga sem standa höllustum fæti fjárhagslega.

Borgarstjóri Reykjavíkur hefði hins vegar ekki getað á sér setið og byrjað að eyða þeim hluta fjármagnsins, sem ætti að renna til Reykjavíkurborgar. Inni í þessum pakka sé, að ríkið hæfi að greiða fasteignagjöld af fasteignum sínum og ljóst væri, að borgin teldi sig nú hafa meira svigrúm, fjárhagslega, en hún hefði haft fyrir samkomulagið.

Geir sagði, að með yfirlýsingu sinni hefði borgarstjóri komið illa í bakið á ríkisstjórninni og ekki kæmi til greina að ríkið fjármagnaði gjaldfrjálsan leikskóla. Leikskólinn væri á forræði sveitarfélaga og þau réðu hvernig þau fjármögnuðu þann rekstur. En með ákvörðun sinni hefði Reykjavíkurborg sett pressu á öll hin sveitarfélögin og klesst þeim upp að vegg, og upp kæmu kröfur innan raða sveitarfélaganna um stóraukin útgjöld á þessu sviði. Sagði Geir, að þetta mál væri ekki til marks um það góða samstarf, sem ætti að vera milli ríkis og sveitarfélaga.

Arnbjörg sagði ljóst, að Reykjavíkurborg hefði ekki þurft á auknum fjármunum að halda frá ríkinu. Þá væri ljóst, að þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjóra um að ríkið ætli að koma inn í að greiða fyrir gjaldfrjálsan leikskóla þá sé það ekki svo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert