Valgerður: Sprungur á Kárahnjúkavæði munu ekki valda vandræðum í rekstri virkjunar

Frá vinnu við stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar.
Frá vinnu við stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar. mbl.is/Steinunn

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að þótt frekari sprungur hafi fundist á Kárahnjúkasvæðinu í lónsstæðinu við Kárahnjúka hafi verið gripið til aðgerða þannig að það muni ekki valda vandræðum við framkvæmdir eða rekstur virkjunarinnar.

Rætt var um stíflusvæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat utan dagskrár á Alþingi í dag að ósk Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Steingrímur sagði, að Kárahnjúkavirkjun væri stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og stærsta jarðvegsstífla sem byggð hafi verið í Evrópu og á bak við hana ætti að mynda uppistöðulón með 2,4 rúmkílómetrum vatns. Nú hefði þurft að endurhanna stífluna jafnóðum og hún er byggð, skipta táveggnum í þrennt, dæla ókjörum af steypu niður í jörðina til að reyna að þétta misgengissprungur sem þar hafi uppgötvast. Síðan reyndu menn að láta eins og engin ástæða sé til að hafa ástæður af þessu, að það sé aðeins svartagallsraus að vitna í niðurstöður vísindamanna sem menn væru nú loks farnir að taka alvarlega.

„Það er nefnilega ekki þannig, að einhver fundur uppi í Landsvirkjun hreki athugasemdir og ábendingar vísindamanna. Það er akkúrat öfugt, að varnaðarorð Guðmundar Sigvaldasonar, Gríms Björnssonar og Ástu Þorvaldsdóttur og fleiri hafa verið staðfest; það hafa reynst fyrir þeim. Og skömmin er þeirra stjórnvalda, vísindamanna og fyrirtækja, sem höfðu þetta að engu, gerðu ekkert með þetta á þeim tíma sem átti að taka ábendingarnar alvarlega og rannsaka þær frekar. Og auðvitað var hneyksli að vaða af stað með þessa framkvæmd, troða frumvarpi, sem heimilaði hana gegnum Alþingi og þegja um og gera ekkert með þær ábendingar sem þarna lágu fyrir. Og þeir sem tala um 150 milljóna viðbótarkostnað vita ekki mikið hvað þeir eru að segja. Það liggur þegar fyrir að nokkurra milljarða viðbótarkostnaður vegna viðbótarframkvæmda," sagði Steingrímur.

Valgerður Sverrisdóttir sagði að allar stíflur á borð við Kárahnjúkastíflu væru hannaðar til að þola sveiflur og leka. Hönnun Kárahnjúkavirkjunar og stíflumannvirkjanna væri í samræmi við alþjóðlegar vinnuaðferðir og hefði staðist ströngustu gæðastaðla erlendra eftirlitsaðila. Sprungur sem kynnu að opnast og víkka á botni Hálslónsins langt frá stíflusvæðinu myndu ekki valda auknum leka úr lóninu og því sé rangt, að lónið gæti tæmst af þeim sökum.

Sagði Valgerður að stíflurnar við Hálslón væru hannaðar til að þola sömu áraun af völdum jarðhræringa og stíflumannvirkin á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þótt það svæði sé margfalt virkara hvað varðar jarðfræðingar.

„Eftir að hafa kynnt mér staðreyndir málsins og með hvaða hætti brugðist er við þessum nýju upplýsingum við hönnun og byggingu stíflnanna er ég þess fullviss að ekki er hætta á ferðum við rekstur Kárahnjúkavirkjunar," sagði Valgerður. „Ég hef áður talað í sambandi við óskylt mál um belti og axlabönd. Ég held að í þessu tilfelli sé óhætt að tala um tvenn axlabönd og tvö belti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert