Hard Rock í Kringlunni lokað eftir mánuð

Frá Hard Rock Café í Kringlunni.
Frá Hard Rock Café í Kringlunni.

Veitingastaðnum Hard Rock Café í Kringlunni verður lokað 31. maí. Fram kemur í tilkynningu, að á fundi með starfsfólki í kvöld voru starfsmönnum afhent uppsagnarbréf um leið og þeim voru þökkuð vel unnin störf fyrir Hard Rock Café. Starfsmenn veitingastaðarins eru um 34 talsins, flest ungt fólk í hlutastörfum.

Í tilkynningunni segir að ekkert hafi verið ákveðið með nýjan Hard Rock Café stað, en hýrum augum sé rennt til miðbæjar Reykjavíkur.

Hard Rock Café hefur verið í Kringlunni frá árinu 1987. Segir í tilkynningunni, að breyttar aðstæður og tíðarandi geri það að verkum að rekstur staðarins hafi ekki staðið undir væntingum síðustu misseri og því hafi sú ákvörðun verið tekin að að loka staðnum.

„Í anda rokksins vill Hard Rock Café frekar brenna hratt upp en koðna niður og því verður maí kveðjumánuður á Hard Rock Café, þar sem gestum staðarins í gegnum tíðina gefst kostur á að kveðja hann með stæl. Tryggt verður að munir í eigu íslenskra poppara, sem þeir hafa falið staðnum til varðveislu, verði vel varðveittir og á stað þar sem þeim verður fullur sómi sýndur. Rætt hefur verið við Poppminjasafn Íslands, án þess þó að ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum," segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert