Mótmælendur ollu tjóni á byggingum og skiltum á Kárahnjúkum

Skilti mótmælenda þar sem andstæðingar virkjanaframkvæmda eru boðnir velkomnir. Virkjunarsinnar …
Skilti mótmælenda þar sem andstæðingar virkjanaframkvæmda eru boðnir velkomnir. Virkjunarsinnar mótmæltu veru þeirra og máluðu yfir skiltið.

Mótmælendur frömdu skemmdarverk á skemmu á Kárahnjúkum í gærkvöldi. Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, segir mótmælendur hafa m.a. málað með lakkúða á spennistöð Landsvirkjunar og skilti á vegum fyrirtækisins. Þá hafi þeir fyrir mistök eyðilagt skilti sem vegi á hálendinu og sé í eigu Vegagerðarinnar. Sigurður segir skemmdarverkin geta numið hundruðum þúsunda króna.

Um er að ræða stóra skemmu austan við Sandfell í eigu verktaka frá Hafnarfirði sem hýsir sprengiefni. Máluðu mótmælendurnir slagorð með lakkúða á skemmuna. Sé málningin sterk og ógerningur að ná henni af. Þurfi að mála alla skemmuna eigi að takast að hylja slagorðin, sem séu á ensku.

Þá hafi mótmælendur málað slagorð með sömu málningu á spennistöð og ýmis vegaskilti sem Landsvirkjun hafi sett upp til skýringa meðfram vegum á virkjanasvæðinu. Erfitt sé að meta tjónið sem af þessum verkum hlýst en það aukist hratt enda þurfi að mála yfir slagorðin. Geti tjónið numið tugum eða hundruðum þúsunda króna.

Þá máluðu mótmælendur yfir vegaskilti í eigu Vegagerðarinnar við Kárahnjúkaveg sem sýni alla vegi á hálendinu á svæðinu umhverfis Snæfellsskála, allt upp undir rætur Vatnajökuls og víðar. Segir hann að nauðsynlegt verði að skipta um skilti og falli allur kostnaður á Vegagerðina.

Sigurður segir mótmælendur vera í um 10 til 20 tjöldum. Telur hann þá flesta vera útlendinga. Hafi þeir mótmæli þeirra orðið sífellt meiri eftir því sem á líði en á laugardag mynduðu þeir mannlega keðju og gengu niður á vinnusvæðið. Varð að loka vegi vegna þessa og var lögregla kölluð til, sem fjarlægði mótmælendurna.

Birgitta Jónsdóttir, talsmaður tjaldbúðanna, segir hjólamenn hafa komið á svæðið í nótt og unnið skemmdarverk á skilti sem á stóð að mótmælendur væru velkomnir. Hún segir skipuleggjendur mótmælanna hafa sætt ýmsum aðdróttunum vegna andstöðu sinnar við byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Mótmæli gegn veru andstæðinga virkjanaframkvæmda var spreyjuð með lakkúða á …
Mótmæli gegn veru andstæðinga virkjanaframkvæmda var spreyjuð með lakkúða á stein á Kárahnjúkum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert