Svarar gagnrýni umhverfisráðherra Ástralíu á hvalveiðar Íslendinga

Hrefna dregin upp í Halldór Sigurðsson ÍS.
Hrefna dregin upp í Halldór Sigurðsson ÍS. AP

Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, hefur skrifað Ian Campell, umhverfisráðherra Ástralíu, bréf þar sem hann svarar gagnrýni ráðherrans á hvalveiðar Íslendinga. Þann 1. ágúst síðastliðinn sagði Campell meðal annars að hvalveiðarnar gangi þvert á ákvörðun meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins og að það þurfi ekki að slátra hvölum til að rannsaka þá. Auk þess lýsti Campell sig andsnúinn vísindaveiðunum, sem hann sagði illa dulbúnar hvalveiðar í hagnaðarskyni.

Árni segir meðal annars í bréfinu að samkvæmt lögum Alþjóðahvalveiðiráðsins sé öllum meðlimum ráðsins heimilt að stunda hvalveiðar í vísindaskyni. Því séu veiðarnar án nokkurs vafa löglegar. Í bréfinu segir einnig að við Ísland séu um 44.000 hrefnur yfir sumartímann og því sé mjög ólíklegt að veiðarnar muni hafa neikvæð áhrif á stofninn.

Enn fremur kemur fram að vísindaveiðarnar séu mikilvægar fyrir Íslendinga þar sem þær séu nauðsynlegur þáttur rannsóknum á fiskimiðum við landið. Auk þess segir Árni að aðferðirnar sem beitt er við veiðarnar séu eins mannúðlegar og mögulegt sé og að rannsóknir frá Noregi, þar sem sömu aðferðum er beitt, sýni fram á að 80% dýranna drepist um leið og þau eru skotin.

Árni segir að lokum að samkvæmt ályktun um aðferðir við hvalveiðar séu stjórnvöld ekki eingöngu hvött til að leggja fram upplýsingar um hvalveiðar, heldur einnig sambærilegar upplýsingar um veiðar á öðrum stórum spendýrum. Í því sambandi sé áhugavert að skoða veiðar á þúsundum villtra úlfalda í Ástralíu, en dýrin eru skotin úr þyrlu. Auk þess séu milljónir kengúra veiddar árlega í landinu. Árni segir að í ljósi þess hversu mikinn áhuga ráðherrann hafi á aðferðum Íslendinga við hvalveiðar geri hann ráð fyrir því að Ástralir muni leggja fram gögn um veiðar sínar á úlföldum og kengúrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert