Formaður Samfylkingarinnar segir frjálshyggjuna á hröðu undanhaldi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði Samfylkinguna vera þann stjórnmálaflokk …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði Samfylkinguna vera þann stjórnmálaflokk á Íslandi sem hafi stærð til að takast á við Sjálfstæðisflokkinn og keppa við hann um forystuhlutverkið hérlendis. mbl.is/ Brynjar Gauti

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að frjálshyggjan væri á hröðu undanhaldi um allan heim, þ.á.m. á Íslandi, í ræðu sinni á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Hún benti á það að í stjórnmálum séu tveir andstæðir meginstraumar – jafnaðarstefna og frjálshyggja. „Á Íslandi eru það Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem eru farvegir fyrir þessa ólíku strauma,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn og sagði m.a. að nú reyni íhalds- og frjálshyggjumenn allra landa að tileinka sér anda og yfirbragð jafnaðarstefnunnar til að ná til kjósenda. „Það munu þeir líka gera hér á landi. En fólk á ekki að sætta sig við slæmar eftirlíkingar þegar því býðst frumgerðin,“ sagði hún.

Ingibjörg sagði að jafnaðarstefnan hafi mótað samfélagsgerð Norðurlandanna hinsvegar séu höfuðstöðvar frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum. Hún benti á að Norðurlöndin væru ekki gallalaus samfélög en skari samt fram úr á flestum sviðum, lífskjör væru þar betri og jafnari en í öðrum löndum og þrátt fyrir tiltölulega háa skatta væri alþjóðleg samkeppnishæfni þeirra mikil.

Ingibjörg sagði að Samfylkingin hljóti að taka sér stöðu andspænis Sjálfstæðisflokknum og standa vörð um miðjuna. „Fyrir þessari stöðu liggja hugmyndafræðilegar, pólitískar og praktískar ástæður. Hugmyndafræðilegar vegna þess að jafnaðarstefnan er öflugasta mótvægið við frjálshyggjuna. Pólitískar vegna þess að Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur stærð til að takast á við Sjálfstæðisflokkinn og keppa við hann um forystuhlutverkið hvort heldur sem er í sveitarstjórnum eða í landsstjórninni. Praktískar vegna þess að það fellur í okkar hlut að finna lausnir á þeim vandamálum misskiptingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilið eftir sig,“ sagði Ingibjörg.

Hún gagnrýndi einnig Morgunblaðið sem í leiðurum, Reykjavíkurbréfum og Staksteinum sínum haldi arfleifð Sjálfstæðisflokksins á lofti. Túlki athafnir flokksins fyrir kjósendum og skrifi sögu flokks og samfélags á hverjum degi.

„Enginn annar fjölmiðill á Íslandi hefur jafn afgerandi stefnu og Morgunblaðið og beitir sér með jafn grímulausum hætti gegn einum tilteknum stjórnmálaflokki. Enginn annar fjölmiðill þjónar jafn opinskátt tilteknum sérhagsmunum í íslensku samfélagi. Enginn fjölmiðill er því jafn hræsnisfullur og Morgunblaðið er í skrifum sínum um samtvinnun fjölmiðlavalds og samfélagsvalds,“ sagði Ingibjörg í ræðu sinni.

Undir lok ræðu sinnar sagði Ingibjörg að Samfylkingin ætli sér afgerandi hlutverk í íslenskum stjórnmálum á komandi árum „vegna þess að við eigum samleið með öllum almenningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert