Gefur ekki kost á sér til endurkjörs

Alfreð Þorsteinsson.
Alfreð Þorsteinsson. mbl.is

Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks og nýskipaður formaður nýrrar framkvæmdanefndar um byggingu nýs hátæknispítala, segist ekki ætla að gefa kost á sér til endurkjörs í kosningum til borgarstjórnar Reykjavíkur á vori komanda. Þau störf sem hann sinni nú séu það viðamikil og krefjist það mikils tíma, að hann sjái ekki fram á að geta sinnt hvoru tveggja. Greindi hann frá þessu í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins í dag.

Segir Alfreð að tíminn fari nú í að undirbúa störf nefndarinnar og hann muni síðan taka að sér formennsku sem fullt starf. Hann muni þó sitja áfram sem borgarfulltrúi þar til kjörtímabili ljúki nú í vor en vinnan við spítalann komist á fullt skrið í byrjun næsta árs.

„Það má segja að ég sé ekki óvanur því að koma nálægt stórum verkefnum vegna þess að Orkuveita Reykjavíkur hefur staðið í ýmsum stórframkvæmdum, nú síðast á Hellisheiðinni, með virkjun þar sem verður tekin í notkun á næsta ári. Þó þetta séu ólík verkefni, að byggja annars vegar orkuver og hátæknispítala hins vegar, þá eru þetta hvort tveggja stór mannvirki og flókin og mjög áríðandi að kalla til liðs við sig gott fólk eins og skipan nefndarinnar ber nú með sér. Þetta er allt vant fólk sem þar er. Ég mun gegna stöðu borgarfulltrúa og forseta borgarstjórnar og formanns stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur til vors, fram að kosningum,“ sagði Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert