Um 10% leikskólabarna af erlendum uppruna

Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, kynnti í gær nýja fjölmenningarstefnu leikskólanna en erlendum börnum hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum. Stefán Jón sagði að þessi stefna væri liður í að koma til móts við þá þróun en í dag eru um 600 börn í leikskólum Reykjavíkur, eða um 10% af heildarfjölda leikskólabarna, af erlendu bergi brotin. Stefán Jón kynnti stefnuna á fjölmiðlafundi sem haldinn var á leikskólanum Fellaborg en þar er hlutfall erlendra barna um 50% og töluð eru 14 tungumál.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að mennta starfsfólk til að kenna íslensku sem viðbótartungumál, tryggja jafnan aðgang að allri þjónustu og stuðning við foreldra með því að láta þýða skilaboð og aðrar upplýsingar. Stefnt er að því að auka túlkaþjónustuna og þjálfa upp færni starfsfólks til samskipta við foreldra barna af erlendum uppruna. Hann taldi mikilvægt að upplýsa foreldra erlendra barna um þjónustu leikskólanna og um tilveru þeirra en ekki hefðu allir vitneskju um þá. Stefán Jón sagði að með þessu væri leikskólakerfið gert aðgengilegra fyrir innflytjendur og börn þeirra og benti jafnframt á að oft ættu erlend börn erfitt uppdráttar þegar komið væri á efri stig skólakerfisins vegna tungumálaörðugleika. Hann taldi mikilvægt að útrýma brottfalli eldri nemenda á efri stigum skólans og besta leiðin til þess væri að byrja á fyrstu stigum menntakerfisins. Einnig taldi hann að með þessu væri verið að hjálpa erlendum börnum við að aðlagast íslenskri menningu og væri það þarft verk. Hann benti á óeirðirnar í París fyrr í vetur sem dæmi um afleiðingar lélegrar aðlögunarvinnu fyrir innflytjendur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert