Karlmaður dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot

Karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur í fangelsi í fjóra mánuði, fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku í húsi að næturlagi þar sem þau voru bæði gestkomandi. En fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð.

Í dómi héraðsdóms var talið hafið yfir vafa að maðurinn, sem stúlkan bar sökum um að hafa áreitt sig, sé viðkomandi. Var framburður hans um málsatvik í andstöðu við framburð stúlkunnar og drengs, sem hafði vaknað við grát hennar og bar að hann hefði heyrt manninn ræða við hana. Þá var vísað til þess að framburður stúlkunnar fengi stoð í framburði drengsins og í framburði konu, sem kvaðst hafa mætt henni um miðja nótt, illa klædda og snöktandi með mikinn ekka, svo og í framburði móður stúlkunnar. Enn fremur var talið að skýrsla sálfræðings benti til þess að stúlkan hefði orðið fyrir verulegu andlegu áfalli, sem hún tengdi við umrætt atvik.

Með hliðsjón af þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði gerst sekur um það brot, sem hann var ákærður fyrir. Varðaði það við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 300.000 krónur í miskabætur.

Ákvæði héraðsdóms um þrjú hundruð þúsund krónur í skaðabætur til handa stúlkunni ásamt vöxtum skal vera óraskaður. Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.061.161 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Eiríks Elís Þorlákssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur, og fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, svo og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði og fyrir Hæstarétti, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 311.250 krónur

Mál þetta dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert