Útlendur plastblómasali rændi aldraða konu í Keflavík

Hér gefur að líta blómin sem maðurinn reyndi að selja …
Hér gefur að líta blómin sem maðurinn reyndi að selja konunni. mbl.is/Hilmar Bragi Bárðason

Lögreglan í Keflavík leitar nú að karlmanni um fertugt, sem er dökkur á hörund og stuttklipptur. Hann rændi fjármunum frá aldraðri konu í íbúðum aldraðra við Kirkjuveg í Keflavík um miðjan dag í dag. Maðurinn bankaði uppá hjá konunni og sagðist vera að selja blóm.

Maðurinn fór á eftir konunni inn í íbúð hennar og tók 5000 krónur úr veski hennar og hljóp síðan á brott. Gamla konan gat ekki gefið lýsingu á manninum. Lögreglumenn hafa farið hús úr húsi og komist að því að maðurinn hafði víða bankað uppá og boðið blóm til sölu eða óskað eftir frjálsum fjárframlögum fyrir götubörn í Rúmeníu, að talið er.

Í einni íbúðinni fengu lögreglumenn afhendan plastblómavönd sem maðurinn hafði selt fyrir 500 krónur. Lögreglan óskar nú eftir því að ef fólk getur veitt upplýsingar um ferðir mannsins, eða gefið á honum greinargóða lýsingu sem gæti leitt til handtöku hans, hafi samband við lögregluna í Keflavík í síma 420 2400.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert