Yfirlýsing frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins varðandi Strætó bs.

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist Fréttavef Morgunblaðsins frá Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Kjartani Magnússyni borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

„Vegna ummæla og yfirlýsinga Bjarkar Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa og fyrrverandi stjórnarformanns Strætó bs. í dag vilja undirritaðir ítreka þá staðreynd að upplýsingum um slæma fjárhagsstöðu Strætó, sem lágu fyrir í mars 2006 eða stuttu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, var leynt fyrir borgarfulltrúum minnihlutans í borgarstjórn og borgarbúum. Þessar upplýsingar sýndu að fyrirtækið var að tapa eina milljón króna á dag umfram áætlanir stjórnar.

Í viðtali í síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag staðfesti Björk þetta enda vildi hún „ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins,“ eins og hún komst að orði. Er því ósmekklegt af henni að væna undirrituð um ósannindi. Þessi ummæli hennar lýsa algjöru ábyrgðarleysi við stjórn fjármála fyrirtækisins.

Á borgarstjórnarfundi 6. september 2005 sagði Björk Vilhelmsdóttir orðrétt: „hið rétta er að nýja leiðakerfið kostar ekki meira en gamla leiðakerfið.“ Tveimur mánuðum fyrir borgarstjórnarkosningar í vor var henni fullljóst um hið gagnstæða. Þrátt fyrir að hér væri um nýjar og mikilvægar upplýsingar að ræða, sem gengu þvert gegn fyrri yfirlýsingar hennar kaus hún að þegja yfir staðreyndum. Hvorki var upplýst um fjárhagsvandann í borgarráði né borgarstjórn þrátt fyrir að stjórn Strætó bs. hafi rætt slæma fjárhagsstöðu á „fjölmörgum stjórnarfundum síðla árs 2005“ eins og Björk segir í yfirlýsingu í dag. Hvergi í fundargerðum stjórnar Strætó bs. er bókað um fjárhagsvandræði fyrirtækisins.

Fjárhagsvandi Strætó er fullkomlega á ábyrgð fyrrverandi meirihluta, sem stýrði Strætó í 12 ár. Á þeim tíma rúmlega fjórfölduðust framlög Reykjavíkurborgar til fyrirtækisins en farþegum hefur fækkað um 26% og heldur áfram að fækka þrátt fyrir að nýtt leiðakerfi hafi verið tekið upp með miklum tilkostnaði og róti.

Úrlausn þessa verkefnis fékk nýr meirihluti í borgarstjórn í arf frá R-listanum. Mikilvægt er að staðreyndir liggi á borðum þegar teknar eru ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna. Rekstrarúttekt á Strætó bs., sem nú er í gangi, mun gefa nýjum meirihluta og stjórn fyrirtækisins upplýsingar sem auðveldar ákvarðanir um næstu skref.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert