Dísa og Bjössi í World Class valin Markaðsmenn ársins 2006

Líkamsræktarstöð World Class í Laugum í Reykjavík.
Líkamsræktarstöð World Class í Laugum í Reykjavík. Morgunblaðið/ Árni Sæberg

ÍMARK, félagsskapur einstaklinga sem hafa áhuga á og/eða starfa við markaðsmál, valdi í dag Björn Kr. Leifsson og Hafdísi Jónsdóttur sem Markaðsmenn ársins. Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem veitti þeim verðlaunin við hátíðarmálsverð á veitingahúsinu Apótekinu.

Ingólfur Guðmundsson, formaður fulltrúaráðs ÍMARK, gerði grein fyrir valinu á markaðsmanni ársins. „Rekstur fyrirtækja þeirra er til fyrirmyndar á allan hátt og sýnir að þau búa ekki aðeins yfir miklum frumkvöðlaeiginleikum og markaðshugsun heldur einnig mikilli staðfestu og dugnaði við að fylgja verkefnum eftir alla leið. Þau hafa náð ótvíræðu forystuhlutverki á sínu sviði og um leið stuðlað að bættri heilsu og vellíðan viðskiptavina sinna,“ sagði Ingólfur.

World Class líkamsræktarstöðin var opnuð í júlí árið 1985. Í dag rekur World Class þrjár heilsuræktarstöðvar hér á landi og fimmtán í Danmörku. Hérlendis eru stöðvar World Class í Spönginni í Grafarvogi, í húsi Orkuveitunnar við Bæjarháls og í Laugum í Laugardal en Laugar eru stærsta heilsuræktarmiðstöð landsins með um 13.000 korthafa. Í undirbúningi er bygging heilsuræktarmiðstöðvar við Sundlaug Seltjarnarness sem áætlað er að opna haustið 2007. Í undirbúningi er einnig heilsuræktarstöð á 16. hæð í nýju turnbyggingunni í Smáranum sem ráðgert er að opna í janúar 2008.

Nýverið keyptu þau hjón heilsuræktarkeðju með 12 stöðvum í Danmörku og þegar hefur þremur verið bætt við. Fjöldi korthafa í Danmörku er nú um 30.000 en markmiðið er að tvöfalda fjölda stöðva og gesta á næstu tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert