Ríkisstjórnin fordæmir árásina á Beit Hanoun

Mótmælendur við utanríkisráðuneytið í morgun.
Mótmælendur við utanríkisráðuneytið í morgun.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra sagði að loknum fundi með sendiherra Ísraels á Íslandi, Miryam Shomrar, að hún hefði afhent sendiherranum bréf sem færa á utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Livni. Í bréfinu er árás Ísraelshers á Beit Hanoun á Gaza-svæðinu fordæmd, en þar féllu 19 borgarar. Íslensk stjórnvöld fordæma þá árás en segjast viðurkenna rétt Ísraels til að verja sig líkt og annarra þjóða samkvæmt alþjóðalögum.

Valgerður segir þessar aðgerðir Ísraela hella olíu á eldinn og gera ástandið enn verra milli Palestínu og Ísrael.

Shomrat mun hafa greint frá afstöðu Ísraelsstjórnar og sagst ætla að færa Livni bréfið. Valgerður útilokaði ekki frekari aðgerðir íslenskra stjórnvalda en sagði ekki til umræðu að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.

„Ég tel t.d. að þessi fundur áðan skipti máli. Og það að við komum þarna á framfæri formlegum mótmælum íslenskra stjórnvalda, sem hefði ekki gerst ef við hefðum ekki verið í stjórnmálasambandi við þessa þjóð,“ sagði Valgerður.

Valgerður vill ekki útiloka neitt í því sambandi að Íslendingar leggi sitt af mörkum við að koma á friði á milli Ísraels og Palestínu. „Ég bauð fram aðstoð við að koma á friði á þessu svæði, og það má skilja það þannig að það geti ýmislegt komið þar til greina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert