Norðmenn bjóða orrustuþotur og eftirlitsflugvélar

Bandarísk Orion kafbátaleitarvél á Keflavíkurflugvelli.
Bandarísk Orion kafbátaleitarvél á Keflavíkurflugvelli. mbl.is

Norsk stjórnvöld eru reiðubúin að senda bæði orrustuþotur og eftirlitsflugvélar til Íslands með reglulegu millibili til að styrkja varnir landsins. Norðmenn telja æskilegt að slíkt fyrirkomulag væri innan ramma Atlantshafsbandalagsins, en eru reiðubúnir að teygja sig langt til að koma til móts við Íslendinga.

„Það sem við höfum hugsað upphátt um eru möguleikar á að eftirlitsferðir Orion-flugvélanna verði farnar lengra í vestur. Til viðbótar við að fara norður um gætu þær farið vestur um af og til. Við gætum hugsað okkur að orrustuþotur okkar gætu komið oftar til Reykjavíkur, ekki til að vera staðsettar þar, en þær myndu hafa Reykjavík á ratsjánni í bókstaflegri merkingu. Svo gætum við kannski rætt björgunarsamstarf og því um líkt,“ segir Espen Barth Eide, aðstoðarvarnarmálaráðherra Noregs, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir bæði varnarmála- og utanríkisráðuneyti Noregs hafa áhuga á málinu. „En við ákveðum auðvitað ekki öryggismálastefnu Íslands. Það gera Íslendingar sjálfir. Við erum reiðubúnir til viðræðna, sem Ísland óskar eftir, en leitum ekki eftir slíku að fyrra bragði.“

Áhugi hjá flughernum

Sverre Diesen hershöfðingi staðfestir að þessar hugmyndir hafi verið til umræðu. Málið hafi verið rætt milli fulltrúa ríkjanna í höfuðstöðvum NATO í Brussel, enda vilji Norðmenn leysa málið innan ramma NATO, með sama hætti og lofthelgiseftirlit bandalagsins í Eystrasaltslöndunum. „Flugherinn okkar hefur mikinn áhuga á að senda flugvélar í skemmri tíma til Keflavíkur,“ segir Sverre Diesen.

Nánar er fjallað um þetta mál í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert