Meirihluti eldri borgara vill vinna

Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
Ný viðhorfskönnun sem Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) lét gera meðal eldri borgara í lok febrúar leiðir í ljós að 66% fólks á aldrinum 65–71 árs telja að verslunarstörf henti eftirlaunaþegum mjög vel eða frekar vel. Samkvæmt sömu könnun hafa 53,4% þeirra eftirlaunaþega, sem ekki eru starfandi, áhuga á atvinnuþátttöku ef það skerðir ekki ellilífeyri þeirra.

Í samtali við Morgunblaðið segir Emil B. Karlsson, forstöðumaður RSV, könnunina hluta af stærri rannsókn sem RSV vinni að varðandi starfsmannamál í verslunum og aukna atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja.

Ánægðir með eldri borgara

Segir hann mikinn akk í því að fá ellilífeyrisþega til starfa í verslunum, en skortur er á starfsfólki í verslunargeiranum. Bendir hann á að rannsóknir meðal verslunareigenda hafi leitt í ljós að þeir séu áhugasamir um að ráða eldriborgara til sín til starfa, enda reynist þeir afar vel í vinnu. Spurður hversu margir eldri borgarar væru líklegir til að skila sér út á atvinnumarkað bendir Emil á að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru rúmlega 23 þúsund Íslendingar á aldrinum 67–80 ára um síðustu áramót.

"Samkvæmt þessum tölum má ætla að um 12.500 eftirlaunaþegar vildu fara út á vinnumarkaðinn ef lífeyrir þeirra skertist ekki við það," segir Emil.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert