Sektaður fyrir að skjóta úr riffli

Héraðsdómur Austurlands hefur sektað karlmann um sjötugt um 100 þúsund krónur fyrir að skjóta úr 22 kalíbera riffli út um glugga á íbúð á Egilsstöðum í átt að ketti sem var þar í garðinum. Riffillinn var einnig gerður upptækur.

Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi. Fram kom hjá honum við þingfestingu málsins að umræddur riffill væri gamall minja- og erfðagripur og erfitt væri að miða og skjóta úr rifflinum.

Dómurinn segir, að við ákvörðun refsingar sé litið til þess að veruleg hætta gat stafað af háttsemi mannsins sérstaklega gagnvart börnum og dýrum sem oft stytti sér leið um garða fólks. Þá sé litið til þess, að ráða hafi mátt af framburði mannsins að umræddur riffill hafi ekki verið öruggur.

Kötturinn, sem maðurinn skaut að, fannst skömmu síðar dauður. Eigandi kattarins krafðist upphaflega 578 þúsund króna bóta en féll frá bótakröfunni þegar málið var þingfest.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka