Borgarbúar kjósa milli tveggja kosta

Sýnishorn af kjörseðli.
Sýnishorn af kjörseðli.

Íbúum Reykjavíkur gefst kostur á að velja milli tveggja kosta í atkvæðagreiðslu sem fram fer í dag um framtíðarnýtingu Vatnsmýrarinnar. Spurt verður: "Vilt þú að flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016 eða vilt þú að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016?" Svarmöguleikar eru þrír. Í fyrsta lagi að flugvöllur verði í Vatnsmýri eftir árið 2016, í öðru lagi að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri eftir árið 2016 og í þriðja lagi er hægt að skila auðu. Utankjörfundaratkvæðagreiðslu lauk síðdegis í gær í ráðhúsinu og kusu þar um 2.700 manns.

Á kjörskrá eru 81.282 íbúar Reykjavíkur en meginskilyrði kosningaréttar eru að vera íslenskur ríkisborgari, hafa átt lögheimili í Reykjavík 24. febrúar 2001 og hafa náð 18 ára aldri á kjördag. Enn fremur eiga kosningarétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti ofangreindum skilyrðum.

Niðurstöður ættu að liggja fyrir um kl. 22 í kvöld

Kjördeildir verða 50 talsins á sex stöðum í borginni; í Kringlunni, Engjaskóla, Seljaskóla, Laugarnesskóla, Hagaskóla og í ráðhúsinu sem verður aðalkosningamiðstöðin. Kjördeildir verða opnar frá kl. 10.00 til kl. 20.00 í kvöld og gerir Gunnar Eydal, formaður kjörstjórnar, ráð fyrir að niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni liggi fyrir í meginatriðum um kl. 21.00 í kvöld, sem er mun fyrr en ef kosið yrði með hefðbundnum hætti. Í fyrsta sinn verður nú kosið með rafrænum hætti og er kjörskráin miðlæg sem þýðir að kjósandi getur kosið á hvaða kjörstað sem er og er ekki bundinn við fyrirfram ákveðinn kjörstað og kjördeild, líkt og í almennum kosningum.

Kosið verður á tölvu en kosningin krefst ekki sérstakrar tölvukunnáttu hjá kjósendum, að sögn Gunnars, en leiðbeiningar fylgja hér á skýringarmynd. Sérstakur búnaður verður fyrir fatlaða og verður sérbúin kosningatölva fyrir blinda og sjónskerta í ráðhúsinu.

Þetta stór atkvæðagreiðsla hefur ekki áður farið fram með rafrænum hætti hér á landi, ef kosningar á síðasta ASÍ-þingi eru undanskildar. Í grein í Morgunblaðinu í gær var bent á öryggisþátt rafrænna kosninga og þá staðreynd að a.m.k. einn tæknimaður hefði aðgang að öllum þáttum kosningakerfisins og gæti þess vegna breytt niðurstöðum kosninganna.

Tölvumenn heita trúnaði og heilindum með yfirlýsingu

Þegar þetta var borið undir Gunnar Eydal sagði hann yfirkjörstjórnina fyllilega hafa gert sér grein fyrir þessum möguleika. Einn til tveir menn hefðu aðgang að einni aðaltölvu sem væri staðsett í ráðhúsinu í læstu rými. Þessir aðilar skrifuðu undir trúnaðaryfirlýsingu til yfirkjörstjórnar. Hann sagði tölvusérfræðinga á vegum borgarinnar einnig fylgjast með störfum umsjónarmanna með kosningakerfinu, sem eru frá Einari J. Skúlasyni hf. en það fyrirtæki hannaði kerfið, er nefnist Kjarval.

"Þessi mannlegi brestur getur alltaf verið fyrir hendi hjá yfirkjörstjórn eða tölvumönnum.

Við höfum hugsað út í þetta og brugðist við með þessum hætti, þannig að menn heiti trúnaði og heilindum í sínum störfum," sagði Gunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert