Lögregla rannsakar umhverfisspjöll við Krókamýrar

Varnarliðsmenn festu sex jeppa á sunnudagskvöld, í brekkum við Krókamýrar, sem eru skammt norðan Vigdísarvalla, og þurftu að skilja þá eftir. Lögreglan í Keflavík rannsakar skemmdir á gróðri og landi.

Rok og rigning með þoku var á þessum slóðum á sunnudag. Ferðamennirnir, flestir varnarliðsmenn, óku á fjórum jeppabifreiðum eftir Vigdísarvallavegi frá Grindavík, en hann er lokaður með hindrun samkvæmt upplýsingum lögreglu, og eftir vegarslóða inn á Krókamýri. Festust jepparnir í brekkum upp á Selvallafjall. Tveir bílar sem komu til aðstoðar festust einnig. Menn úr björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík voru kallaðir til aðstoðar á sunnudagskvöld. Ekki tókst að ná upp jeppunum og fékk fólkið far með björgunarsveitarmönnum til byggða.

Lögreglumenn voru sendir á vettvang í gær til að ljósmynda og rannsaka umhverfisspjöll. Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður segir að jeppunum hafi verið ekið út af vegarslóðanum hér og þar, til að forðast ófærur og séu ljót spjöll eftir þá á nokkrum stöðum enda sé jarðvegur mjög blautur og klaki að fara úr jörðu. Lögreglumennirnir fengu björgunarsveitarmenn til að fara með sig á vettvang en Hjálmar segir að svæðið sé eitt svað og þeir hafi orðið að skilja bílinn eftir við fyrsta jeppann sem þeir komu að og ganga að hinum bílunum. Telur hann að erfitt geti orðið að ná bílunum upp fyrr en eitthvað þorni upp. Þá verði að reyna að draga þá upp með spilum.

Þórir Maronsson yfirlögregluþjónn segir að ferð fólksins virðist hafa verið algert gönuhlaup og þeir sem ábyrgð beri á því kunni að sæta refsingu vegna landspjalla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert