Fólk úr ýmsum áttum mótmælti NATO-fundi á Hagatorgi

Hluti þeirra sem mótmæltu í nágrenni Háskólabíós síðdegis.
Hluti þeirra sem mótmæltu í nágrenni Háskólabíós síðdegis. mbl.is/Golli

Fólk úr ýmsum áttum tók þátt í mótmælastöðu á Hagatorgi í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO og samstarfslanda bandalagsins í Reykjavík í dag. Stefán Pálsson, formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, sagði að markmiðið með mótmælastöðunni hafi verið að mótmæla NATO og nokkrum einstaklingum sem taka þátt í ráðstefnu bandalagsins.

Mótmælin hófust klukkan 17 og stóð fólk á þeim hluta Hagatorgs, sem ekki var afgirt, í kringum þrjá stundarfjórðunga. Stefán sagði að um eitt þúsund manns hefði tekið þátt í mótmælunum, sem voru á vegum ýmissa samtaka, einkum einstaklinga úr Samtökum herstöðvaandstæðinga. „Þarna var fólk sem hefur látið sig varða Palestínu og Írak. Þá lögðu stjórnleysingjar leið sína á Hagatorg. Menn komu með eigin spjöld, blöðrur, og trommur" sagði Stefán.

„Margir eru á móti hernaðarbandalaginu NATO og stefnu þess, en þarna voru einnig fulltrúar bandarískra stjórnvalda, sem bera ábyrgð á málefnum sem snúa að Ísrael. Þá mótmælti fólk Silvio Berlusconi, sem gegnir embætti utanríkisráðherra Ítalíu. Fólk mótmælti einnig Tyrkjum, sem bera ábyrgð á fjöldamorðum á Kúrdum. Gott ef ekki þarna voru óánægðir flugáhugamenn, sem ekki fá að fljúga frá Reykjavíkurflugvelli. Það má því segja að þarna hafi komið saman fólk úr ýmsum áttum, en við höfðum til hliðsjónar þau stóru mótmæli sem átt hafa sér stað í Evrópu og Bandaríkjunum, en í þeim hefur fólk mótmælt með sínu nefi," sagði Stefán.

Stefán sagði að mótmælin hefðu farið friðsamlega fram, enda hafi þau farið fram í fullum skilningi lögreglu. „Ég er afskaplega ánægður með þessi mótmæli og þess má geta að Sara Flounders, sem er bandarísk baráttukona, sem er stödd hér á landi, fannst mótmælastaðan hafa tekist ákaflega vel."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert