Norðurljós kæra Búnaðarbankann til Fjármálaeftirlitsins

Stöð 2, sjónvarpsstöð Norðurljósa.
Stöð 2, sjónvarpsstöð Norðurljósa.

Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, hefur fyrir hönd Norðurljósa ritað Fjármálaeftirlitinu bréf, þar sem hann sakar Búnaðarbanka Íslands hf. m.a. um að upplýsa þriðja mann um allar skuldir Norðurljósa við bankann og heildarfjárhæð þeirra.

Þetta háttalag feli í sér brot á þagnarskylduákvæði 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Krefst forstjóri Norðurljósa þess, að Fjármálaeftirlitið greini ríkislögreglustjóra frá niðurstöðum sínum að aflokinni rannsókn, þar sem telja verði brot Búnaðarbankans og starfsmanna hans gegn Norðurljósum mjög alvarleg og þess eðlis, að þau séu refsiverð.

Þá fer Sigurður þess á leit við Fjármálaeftirlitið að stofnunin taki nú þegar til rannsóknar "þá fyrirætlun starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. að knýja Norðurljós í gjaldþrot í þágu þriðja manns."

Í kærunni kemur fram að Búnaðarbankinn hafi í júlí í fyrra lánað Norðurljósum 350 milljónir króna. Lánið hafi borið að endurgreiða með einni greiðslu í júní 2004. Fyrsti vaxtagjalddagi væri 3. desember 2002. Þetta lán hafi nú verið gjaldfellt og Búnaðarbankinn hafi höfðað mál á hendur Norðurljósum.

Orðrétt segir m.a. í kærunni: "Þann 13. júní 2002 sendu Norðurljós Búnaðarbanka Íslands hf. formlegt erindi varðandi aukinn frest til að skila umbeðnum gögnum. Áður en það bréf barst bankanum virðist bankinn hins vegar hafa tekið þá ákvörðun að veita ekki frest og gjaldfelldi lánið með tilkynningu dagsettri 12. júní 2002, sem boðsend var Norðurljósum fyrir hádegi 13. júní 2002. Í niðurlagi bréfisins segir svo:

Lögfræðilegar innheimtuaðgerðir Búnaðarbankans á hendur félaginu munu hefjast án frekari viðvörunar.

Það gekk eftir því Búnaðarbanki Íslands hf. höfðaði mál á hendur Norðurljósum sem þingfest var þann 27. júní 2002 til heimtu lánsins auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar."

Síðar segir: "Norðurljós skiluðu Búnaðarbanka Íslands hf. umbeðnum gögnum þann 14. júní 2002 eins og lofað hafði verið... Eftir að gögnum hafði verið skilað var þess farið á leit við Búnaðarbanka Íslands hf. að bankinn félli frá málsókn sinni. Bankinn hefur ekki orðið við þeirri ósk, enda komið á daginn að Búnaðarbanki Íslands hf. eða í það minnsta einhverjir starfsmenn hans hafa tekið að sér fyrir Árna Samúelsson, Björgólf Guðmundsson, Einar Sigurðsson, Gunnar Jóhann Birgisson, Hjört Nilsen, Jón Pálmason, Sigurð Gísla Pálmason og Tryggingamiðstöðina hf. og óstofnað einkahlutafélag þessara aðila, Fjölmiðlafélagið, að knýja Norðurljós í gjaldþrot. Þessir aðilar koma allir með einum eða öðrum hætti að rekstri annarra fjölmiðla hér á landi svo sem DV og Skjás eins."

Í kæru Sigurðar kemur fram að samkvæmt þeim fylgiskjölum sem hann sendir Fjármálaeftirlitinu með kærunni séu drög að skjölum frá 29. maí sl. sem stafi frá Búnaðarbanka Íslands.

Orðrétt segir: "Sérstaka athygli vekur að í texta þessara skjala upplýsir Búnaðarbanki Íslands hf. þriðja mann um allar skuldir Norðurljósa við bankann og heildarfjárhæð þeirra. Þetta háttalag af hálfu starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. felur í sér brot á þagnarskylduákvæði 43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996 og verður seint talið í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert