Náðist slasaður á flótta undan leitarmönnum

Hrúturinn þrjóski, sem sneri á leitarmenn á Gnúpverjaafrétti á dögunum og synti yfir Þjórsá, er nú allur en leitarmenn á Holtamannaafrétti náðu hrútnum á laugardag þegar þeir leituðu Búðarháls. Sagt var frá hrútnum í Morgunblaðinu í síðustu viku. Hrúturinn náðist eftir að hann slasaðist á flóttanum og aflífuðu leitarmennirnir hrútinn, sem var réttdræpur þar sem hann hafði farið yfir sauðfjárveikivarnarlínu.

Jónas Jónsson frá Kálfholti, fjallkóngur Áshreppinga og oddviti í Ásahreppi, segir að hrúturinn hafi verið við Manntapahellu þegar hann sást, beint á móti bólinu sínu við Ófærutanga. Tveir vanir og hraustir fjallmenn, Hallgrímur Birkisson frá Króki og Sigfús Davíðsson, sem er ættaður frá Sumarliðabæ en býr á Hellu, hafi hlaupið á eftir hrútnum í tvo og hálfan klukkutíma, um erfitt landslag. "Þeir eltu hann í klettum og náðu hrútnum fyrir rest eftir að hann hafði slasast þegar honum skrikaði fótur. Þarna eru háar bríkur og klettabelti. Mestu skiptir að mennirnir skyldu ekki slasast," segir Jónas. Hann segir að Manntapahella sé einmitt kölluð svo þar sem sagan segi að þeir sem reyndu að fara yfir Þjórsá á þessum stað hafi runnið í hana.

"Þjórsá rennur víða í þröngum gljúfrum, sem eru víða há. Sumstaðar er hengiflug, annars staðar eru erfiðar brekkur með lausu grjóti. Þarna er víða mikil hætta fyrir menn að fara og þangað eru ekki sendir nema þaulreyndir og ólofthræddir menn. Það hefur oft komið til þess að þarna hefur þurft að fara í bönd og síga eftir kindum," segir Jónas.

Urðaður í gljúfrinu þar sem hann vildi vera

Eftir að leitarmennirnir náðu hrútnum aflífuðu þeir hann og urðuðu í gljúfrinu, þar sem hrúturinn vildi jú sjálfur vera. Í fyrra voru margar árangurslausar tilraunir gerðar til að ná hrútnum og kom hann sér fyrir í skúta í Þjórsárgljúfri þar sem hann hafðist við yfir veturinn. Jónas segir að hrúturinn hafi ekki verið neitt lamb að leika sér við. "Hann var einfari, var orðinn svo villtur að hann sætti sig ekki við að sjá manninn nálægt sér og samlagaðist engu fé. Það er óvenjulegt að lenda í svona kindum sem ekki er hægt að höndla. Ég hef oft lent í þrjóskum kindum og þær ganga stundum frekar í opinn dauðann en að láta taka sig," segir Jónas.

Hann segir að leitarmennirnir hafi ákveðið að skynsamlegast væri að aflífa hrútinn þarna á staðnum, en ekkert beið hans annað en að fara í sláturhús þar sem hann var kominn yfir varnarlínu. "Ef hann hefði ekki náðst hefði náttúran séð fyrir honum, það er óvenjulegt að hrútar lifi þarna af veturinn. Okkur er skylt að koma í veg fyrir að hann þjáist, sé hungraður yfir veturinn og dagi þarna uppi," segir Jónas.

Leitarmenn á Holtamannaafrétti réttuðu á sunnudag í fyrsta skipti í nýrri rétt, Haldrétt, skammt frá nýju brúnni yfir Tungnaá, en þar var áður kláfferja yfir ána.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert