Viðræður óformlegar fram yfir helgi

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, taldi fund dagsins gagnlegan í óformlegum stjórnarmyndundarviðræðum VG, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar.

Það var fundur í dag og hann var gagnlegur. Við erum enn að ræða ramma ríkisfjármála og stöðu efnahagsmála og það var sammælst um það að halda viðræðunum óformlegum fram yfir helgi,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is.

„Við skulum sjá, þetta eru ágætlega gagnlegir fundir og við verðum að sjá til hver niðurstaðan verður,“ sagði Katrín, spurð hvort hún væri bjartsýnni nú en þegar sömu fimm flokkar fóru í formlegar stjórnarmyndunarviðræður í lok síðasta mánaðar.

Talið hefur verið að langt sé á milli Viðreisnar og VG í skattamálum og fleiri málum. Katrín sagði of snemmt að segja til um hvort flokkarnir væru farnir að nálgast hvor annan:

„Það er of snemmt að segja til um það, þess vegna ákváðum við að gefa okkur meiri tíma á þessu stigi. Línurnar skýrast örugglega eftir helgi,“ sagði Katrín en næsti fundur flokkanna fimm er áætlaður klukkan 10 í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert