Búið að uppfæra þingmenn á netinu

Hægt er að skoða mætingu, fjölda ræða, frumvörp og fyrirspurnir …
Hægt er að skoða mætingu, fjölda ræða, frumvörp og fyrirspurnir svo eitthvað sé nefnt á vefsíðunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný uppfærsla heimasíðunnar thingmenn.is er komin í loftið. Þar má nálgast ýmsar upplýsingar um vinnu þingmanna, svo sem viðveru í þingsal, fjölda ræða, frumvarpa og fyrirspurna og einnig hvaða málaflokkar eru þeim hugleiknastir í ræðustólnum.

Síðan var fyrst búin til fyrir alþingiskosningarnar í fyrra og innihélt þá gögn frá kjörtímabilinu 2013-16. Hin nýja uppfærsla er töluvert umfangsmeiri því hún styðst við gögn tíu ár aftur í tímann, allt frá kosningum 2007. Bæring Gunnar Steinþórsson er höfundur verkefnisins en hann hefur notið liðsinnis samstarfsfélaga sinna hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja. Verkefnið er allt unnið í frítíma en Bæring segir síðuna upphaflega hafa tekið sex vikur í vinnslu þegar hún kom fyrst út. „Síðan byrjuðum við aftur að vinna í þessu fyrir svona viku.“

Gögnin eru fengin af vef Alþingis. „Það er rosalega flottur vefur með mikið af gögnum sem eiginlega enginn veit um,“ segir Bæring. Markmiðið með verkefninu væri að birta þessi gögn á skemmtilegri og einfaldari máta. Stefnan er síðan sett á að vefsíðan uppfærist sjálfkrafa í framtíðinni þannig að ný gögn detti inn jafnóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert