Halldóra formaður velferðarnefndar

Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar.
Halldóra Mogensen er formaður velferðarnefndar. Ljósmynd/Aðsend

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, verður formaður velferðarnefndar Alþingis fyrri helming kjörtímabilsins. Seinni helminginn stýrir þingmaður Samfylkingar nefndinni en Píratar taka þá við formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Fram kom í fréttum fyrr í dag að Píratar og Samfylkingin hafi  ákveðið að skipta á milli sín formennsku í nefndunum tveimur á kjörtímabilinu.

„Flest öll mál sem ég brenn fyrir eru mál sem eru tengd velferðanefndinni,“ segir Halldóra í samtali við mbl.is, en hún sat í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, eftir alþingiskosningarnar í fyrra. Þá átti Halldóra einnig sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins og Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.

Hún tók fyrst sæti á Alþingi árið 2014 sem varaþingmaður Helga Hrafns Gunnarssonar. Halldóra hefur einnig setið í framkvæmdaráði Pírata og tók þátt í stofnun flokksins.

Ekki hefur enn verið ákveðið hver sitji í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir hönd Pírata að sögn Halldóru.

Funda með þingmönnum á morgun

Þá sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is nú síðdegis að ekki hafi enn verið ákveðið hverjir taki sæti í hvaða nefndum fyrir hönd Samfylkingarinnar.

„Þetta er púsl og það leysast allir bútar í einu, svo ég vitni í forsætisráðherra,“ segir Logi. Hann og Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður muni funda með þingmönnum á morgun og heyra hvert þeirra hugur stefnir og að því loknu verði tillaga lögð fyrir þingflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert