ESB-hindruninni hefur verið rutt úr veginum

Jóhanna Sigurðardóttir kemur til fundar í stjórnarráðinu í gær.
Jóhanna Sigurðardóttir kemur til fundar í stjórnarráðinu í gær. mbl.is/RAX

Stjórnarliðar sem rætt var við í gær eru þess fullvissir að stjórnarmyndunarviðræðunum muni ljúka fyrir vikulok með endurnýjun stjórnarsamstarfsins.

Mikil fundarhöld voru í starfshópum um einstaka málaflokka í gærdag og eru þeir farnir að skila niðurstöðum sínum inn á borð leiðtoganna.

Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman eftir hádegi og kl. 15 áttu svo formenn og varaformenn flokkanna auk sérfræðinga fund í forsætisráðuneytinu þar sem viðræðunum var haldið áfram.

Samkvæmt traustum heimildum hafa flokkarnir í reynd náð lendingu í erfiðasta ágreiningsmálinu, Evrópusambandsmálinu. Þó ekki sé formlega búið að ganga frá samkomulagi eða ræða til lykta hver málsmeðferðin verður, þá sé orðið ljóst að ESB-málið standi ekki lengur í vegi þess að takast muni að endurnýja stjórnarsamstarfið.

Eftir því sem næst verður komist er niðurstaðan sú að það verði meirihluta Alþingis að ákveða hvort hafnar verða aðildarviðræður við Evrópusambandið, óháð ólíkri stefnu stjórnarflokkanna til aðildar. Sú ákvörðun eigi ekki að raska stjórnarsamstarfinu.

Stjórnarflokkarnir sættist þannig á að vera ósammála um aðild en báðir hafa á stefnuskrá að málið verði á endanum borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nánar er fjallað um stjórnarmyndunarviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: