Eftir Dag Gunnarsson
dagurg@mbl.is

Ekkert lát virðist vera á olíuverðhækkunum og heimsmarkaðsverð fór í vikunni yfir 71 bandaríkjadal fyrir fatið á mörkuðum í London og New York og norðursjávarolían hefur aldrei verið dýrari, enda lítur úr fyrir að norski olíusjóðurinn, sem nú heitir Eftirlaunasjóður ríkisins, gæti hagnast um 550 milljarða íslenskra króna á árinu, umfram það sem ráð var áætlað. Íslensk olíufélög versla öll á olíumarkaðnum í Rotterdam í Hollandi eins og flest öll lönd í Mið- og Norður-Evrópu og megnið af þeirri olíu sem er seld á þeim markaði kemur frá Norðursjónum eða svokölluðu Brent-svæði. Bensín og díselolía til hins almenna neytenda hafa aldrei kostað meira í krónum talið hér heima og mörg erlend flugfélög hafa þegar hækkað flugfargjöld sín á lengri leiðum. Flestri sérfræðingar spá því að bensínverð eigi eftir að hækka meira en orðið er.




Íran er fjórði stærsti olíuframleiðandi heims og það er fyrst og fremst óvissan í kjarnorkuframleiðslu Írans og óttinn við að Bandaríkjamenn geri árás á landið sem valda hinu háa olíuverði nú. Verði stríð milli landanna eða olíuútflutningur frá Íran stöðvast af einhverjum öðrum ástæðum má ganga að því vísu að verðið á olíufatinu ná áður óþekktum hæðum. Sérfræðingar segja að olíuverð muni halda áfram að hækka á meðan deila Bandaríkjamanna við Íran er óleyst.

Við þetta ástand bætast óróleikar í Nígeríu þar sem hægt hefur á framleiðslunni vegna deilna vopnaðra uppreisnarmanna við alþjóðleg olíufyrirtæki sem þeir segja að arðræni Nígeríumenn.

Indland og Kína hafa undanfarið aukið sína olíuneyslu jafnt og þétt og myndar það aukna eftirspurn á alþjóðamarkaðnum og að auki nálgast sumarleyfi í Bandaríkjunum og með þeim eykst olíuneyslan töluvert og óttast menn að innlendar birgðir dugi ekki til.

  • Skýringarmynd: Frá iðrum jarðar til bensíndælu