Flaggað í hálfa stöng á hálendinu

Íslenski fáninn dreginn í hálfa stöng í Snæfellsskála í dag.
Íslenski fáninn dreginn í hálfa stöng í Snæfellsskála í dag. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Íslenski fáninn var hífður í hálfa stöng á nokkrum stöðum á hálendinu í dag, þar á meðal í Kverkfjöllum, á Snæfelli og við Herðubreiðarlindir. Þarna var um að ræða landverði og skálaverði sem framkvæmdu gjörninginn utan vinnutíma síns. Landverðirnir mættu með eigin fána og flaggstöng í Herðubreiðarlindir sökum þess að í fyrra voru viðkomandi einstaklingar áminntir munnlega vegna þessa háttalags.

„Við erum að minnast þess sorgardags þegar Alcoa og Landsvirkjun undirrituðu samning um Kárahnjúkavirkjun, þar sem hálendið tapaði enn og aftur. Við notum fánann af því að hann er tákn fyrir náttúru Íslands.

Við flöggum ekki sem landverðir, heldur sem einstaklingar, utan okkar vinnutíma. Við viljum minna á þær náttúruperlur sem við þurfum að passa upp á og eru enn tiltölulega ósnortnar. Það eru margar perlur á skipulagskortum stjórnvalda og Landsvirkjunar, til dæmis Þjórsárver og Torfajökulssvæðið, sem er rétt hjá Landmannalaugum.

Við landverðir eigum í miklum samskiptum við ferðamenn og erum í náinni snertingu við þessi svæði. Þau eru mörgum mikils virði og sem víðerni eru þau ómetanleg. Margir ferðamenn sem hafa farið um Kárahnjúkasvæðið og nærliggjandi framkvæmdasvæði hafa komið til okkar og lýst yfir sorg sinni og óánægju með þá þróun sem á sér stað hér á hálendinu með þessum framkvæmdum. Þeim finnst með ólíkindum að við skulum sóa auðlindum okkar svona.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert