Forsætisráðherra Sri Lanka fagnar friðarumleitunum Tamíl-tígra

Velupillai Prabahkaran, leiðtogi Tamíl-tígranna, hélt blaðamannafund í gær.
Velupillai Prabahkaran, leiðtogi Tamíl-tígranna, hélt blaðamannafund í gær. AP

Forsætisráðherra Srí Lanka fagnaði í dag friðarumleitunum leiðtoga Tamíl-tígra, Velupillai Prabhakaran, og sagði að báðir aðilar væru að þokast nær pólitískri lausn á 18 ára átökum milli þjóðernishópa. "Ég held að við getum flýtt friðarferlinu," sagði Ranil Wickremesinghe í útvarpsávarpi.

Prabhakaran sagðist í gær ekki enn reiðubúinn að falla frá kröfu uppreisnarmanna um sjálfstætt ríki Tamíla en að hann væri reiðubúinn að ræða um að sett verði á fót bráðabirgðastjórn á svæðum uppreisnarmanna og að sú stjórn yrði leidd af Tamílum. Prabhakaran sagðist "einlæglega og af alvöru staðráðinn í að leita friðar". Þá sagðist hann vongóður um friðarsamkomulag, sem gert var að frumkvæði Norðmanna, og varð til þess að samningar náðust um vopnahlé fyrir sjö vikum og samþykkt var að friðarviðræður færu fram í Taílandi í næsta mánuði. Tamílar, sem eru um 18% íbúa Sri Lanka sem alls eru 18,6 milljónir talsins, segja að þeim sé mismunað og öðrum íbúum landsins gert hærra undir höfði. Stjórnmálaskýrendur segja að ummæli leiðtoganna tveggja séu skýrustu merki undanfarinna ára um að varanlegur friður náist og þannig verði bundinn endi á borgarastyrjöld sem kostað hefur 64.500 manns lífið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert