Orkuveitan veitir tveimur konum námsstyrki

Orkuveita Reykjavíkur veitti í dag sjötta árið í röð námsstyrki til kvenna sem stunda verkfræði- eða tækninám. Styrkina hlutu að þessu sinni Ólöf Kristjánsdóttir, nemi á þriðja ári í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, og Brynja Baldursdóttir, sem stundar mastersnám í iðnaðarverkfræði við Georgia Institute of Technology í Atlanta í Bandaríkjunum. Styrkupphæðin til hvorrar nemur 225 þúsund krónum.

Styrkirnir voru fyrst veittir af Vatnsveitu Reykjavíkur árið 1997, en af Orkuveitu Reykjavíkur eftir sameiningu veitustofnana á árinu 2000. Á því ári gekk Orkuveitan einnig til liðs við átak Háskóla Íslands um jafnara námsval kynjanna, en markmið þess átaks og styrkveitingar Orkuveitunnar eru hin sömu.

Dómnefnd skipuðu Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þorbjörg Vigfúsdóttir og Hildur Jónsdóttir og völdu þær styrkþega úr hópi 35 umsækjenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert