Hvers vegna komast „vondir strákar“ yfir fleiri stelpur?

Úr James Bond-myndinni Die Another Day.
Úr James Bond-myndinni Die Another Day. mbl.is

Ný sálfræðirannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum hefur nú rennt stoðum undir þá almennu vitneskju að „vondir strákar“ eigi jafnan fleiri rekkjunauta en ljúflingarnir. Það sem veldur þessu, segja höfundar rannsóknarinnar, er það sem þeir vilja helst kalla „James Bond-heilkennið.“

Formlega kalla höfundarnir, Peter Jonason og samstarfsmenn hans við New Mexico State University, orsökina „hina myrku þrenningu“ - skapgerðareiginleika sem sameina heimtufrekju sjálfsdýrkandans, hvatvísi og spennufíkn siðblindingjans og kænskubrögð hins slægvitra.

Sá sem hefur einhvern þessara eiginleika á háu stigi er félagslegt rándýr, en þeir sem hafa mátulegan skammt af þeim öllum eru gjarnir á að vera afar duglegir í kynlífinu, segir í niðurstöðunum.

Jonason segir við The Globe and Mail að þeir menn sem þessir eiginleikar samþættist í eigi auðveldara með að hugsa fyrst og fremst um að fullnægja eigin hvötum og þess vegna aukist líkurnar á að þeir eigi í skammtímasamböndum.

„Þetta er einskonar James Bond-sálgreining,“ segir Jonason. „Og ég vildi helst nefna þetta „James Bond-heilkennið“ fremur en „myrku þrenninguna“ vegna þess að hér er í rauninni ekki um að ræða klínískar hliðar þessara skapgerðareinkenna heldur hvernig venjulegt fólk getur haft þessa neikvæðu eiginleika en engu að síður látið gott af sér leiða. Þetta geta verið læknar, kennarar og stjórnmálamenn - og svo auðvitað njósnarar.“

Önnur rannsókn á körlum í 57 löndum hefur leitt í ljós svipuð tengsl á milli „myrku þrenningarinnar“ og fjölda afkvæma.

Í rannsókn Jonasons segir ennfremur, að myrka þrenningin kunni að leiða til samskiptahátta sem einkennist af því að nota annað fólk, og þeir sem hafi þessa skapgerðareiginleika séu „ekki vel til þess fallnir“ að viðhalda samböndum lengi. Þegar eiginleikar þeirra verði öðru fólki ljósir verði þeir ennfremur „álitnir lítt eftirsóknarverðir, og því beri að forðast að velja þá sem lífsförunauta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert