Segir Norðurlöndin hafa beitt Ísland þrýstingi

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á kjörstað í Álftanesskóla …
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fjölmiðlamenn á kjörstað í Álftanesskóla í dag. Reuters

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við norska blaðið Aftenposten, að Norðurlöndin hafi öll með beinum eða óbeinum hætti stutt þann þrýsting, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt Íslendinga í Icesave-málinu. „Það er ekki notalegt að segja þetta en það er samt staðreynd," segir Ólafur Ragnar við blaðið. 

Aftenposten segir, að Ólafur Ragnar hafi lýst miklum vonbrigðum með afstöðu Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands undanfarið ár. Norðurlöndin hafi ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekki afgreitt stóran hluta þeirra lána, sem þau hétu Íslendingum og áttu að stuðla að efnahagslegri endurreisn Íslands.

„Þau hafa öll beint eða óbeint stutt þann þrýsting, sem Bretland og Holland hafa beitt Ísland. Það er ekki notalegt að segja þetta en það er samt staðreynd. Þetta er greinilega vandræðalegt mál fyrir þau," hefur Aftenposten eftir Ólafi Ragnari og segir að forsetinn hafi ekki áður gagnrýnt nágrannalönd Íslands með jafn afgerandi hætti. 

Ólafur Ragnar segir í viðtalinu, að svo virðist sem þau lönd, sem eiga aðild að Evrópusambandinu, einkum þó Svíar sem voru í forsæti ESB síðari hluta síðasta árs, hafi nálgast málið frá annarri hlið. „Það er kannski skiljanlegt," segir Ólafur Ragnar. 

Hann segir, að Íslendingar hafi staðið við öll þau skilyrði, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti fyrir lánafyrirgreiðslu en samt hafi lánin ekki verið greidd út.

„Það er eins og stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé einskonar öryggisráð þar sem ákveðnar aðildarþjóðir hafi neitunarvald. Ef horft er á Icesave-málið eru það lögmæt rök, að þjóðinni beri ekki skylda til að tryggja innistæður í gjaldþrota bönkum samkvæmt ESB-reglum. Í ljósi þessarar lagalegu óvissu er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notaður til að þvinga fram lausn, sem er vafasöm í lagalegu tilliti," segir Ólafur Ragnar.

Aftenposten bar ummæli Ólafs Ragnars undir Sigbjørn Johnsen, fjármálaráðherra Noregs, sem segist undrandi á þeim og segir að Norðmenn standi við skuldbindingar sínar gagnvart Íslandi.

„Við höfum alltaf verið í góðu sambandi við íslensku ríkisstjórnina og við sjáum fram á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti afgreitt málið þannig að við getum greitt út næsta hluta af lánunum. Í því ljósi er ég undrandi á yfirlýsingum forseta Íslands," segir hann.

Þau svör fengust frá Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, að hann vildi ekki tjá sig um málefni Íslands fyrr en endanleg niðurstaða lægi fyrir úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hann vildi heldur ekki tjá sig um gagnrýni Ólafs Ragnars á Noreg og hin Norðurlöndin.

Frétt Aftenposten

mbl.is