Varað við Internet Explorer á Norðurlöndum

Microsoft Internet Explorer.
Microsoft Internet Explorer.

Opinberar stofnanir í Finnlandi og Svíþjóð hafa varað neytendur við að nota Internet Explorer vafrann frá Microsoft, vegna öryggisveilna. Sömuleiðis hefur Cert viðvörunarþjónustan í Danmörku sent frá sér svipaða tilkynningu. Friðrik Skúlason, sérfræðingur í tölvuveirum, segir að slíkt sé ekki í verkahring neinnar opinberrar stofnunar á Íslandi. Hann varar ekki sérstaklega við Internet Explorer frekar en öðrum vöfrum, svo lengi sem sóttar séu öryggisuppfærslur frá Microsoft.

Friðrik segir að Internet Explorer sé með mýgrút af öryggisveilum. „Sú nýjasta er í jpg-myndum. Hægt er að koma því svo fyrir að sá sem opnar myndina í vafranum fær kóða á vélina sína. Þess vegna er hægt að setja slíka mynd á vefsíðu og þá þarf ekki annað til en að heimsækja þá síðu til að fá veiru á vélina sína.“

Friðrik segir að öryggisgloppur í Microsoft hugbúnaði hafi verið viðvarandi vandamál í mörg ár. „Þó ber ekki að álykta sem svo að Microsoft hugbúnaður sé óöruggari en annar hugbúnaður. Það er einfaldlega vegna þess hversu útbreiddur hann er sem ýmsir vafasamir aðilar leita að öryggisholum í hugbúnaðinum og nýta sér þær,“ segir hann.

„Menn eru auðvitað öruggari, ef þeir eru með sjaldgæfari hugbúnað á borð við Operu vafrann og Linux stýrikerfið. Það er ekki vegna þess að hann sé öruggari, heldur einfaldlega vegna þess að færri reyna að nýta sér öryggisgloppurnar,“ segir hann.

Þeir sem nota Microsoft hugbúnað og sækja ekki öryggisuppfærslur reglulega eru að bjóða hættunni heim, að sögn Friðriks. „Það er svolítið eins og að skilja útidyrnar hjá sér eftir opnar,“ segir hann. Hann segir að fólk ætti að vera nokkuð öruggt ef það stillir Windows stýrikerfið á sjálfvirka uppfærslu. „Það hjálpar til. Venjulega líða a.m.k. 1-2 vikur frá því Microsoft tilkynnir um öryggisholuna þar til einhverjir fara að nýta sér hana. Það er mjög sjaldgæft að einhver finni öryggisveilur á undan Microsoft. Vandamálið er hins vegar að margir eru að nota gamlar útgáfur af stýrikerfinu og hafa ekki sótt öryggisuppfærslur mánuðum saman. Þeir eru bara mögulega illa staddir.“

Friðrik segir að alvarlegar öryggisveilur í Internet Explorer skipti nokkrum tugum á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert