NASA: 2004 fjórða heitasta árið á jörðinni frá því mælingar hófust

Vísindamenn við bandarísku geimferðastofnunina, NASA, greindu frá því í dag, að 2004 hafi verið fjórða heitasta ár á jörðinni frá því hitamælingar hófust um heim allan í lok nítjándu aldar. Meginástæðan sé gróðurhúsaáhrif, en einnig hafi El Nino-straumurinn í Kyrrahafi lagt sitt að mörkum.

„Undanfarin þrjátíu ár hefur hitastigið greinilega farið stigvaxandi, og sýnt hefur verið fram á að þessi hitaaukning sé fyrst og fremst afleiðing þess að magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur aukist,“ sagði James Hansen, veðurfarsfræðingur hjá NASA.

Heitasta árið sem mælst hefur var 1998, síðan 2002 og 2003. Í fyrra var meðalhiti á jörðinni 14 gráður, sem er 0,48 gráðum heitara en nokkurt ár á bilinu 1951-1980.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert