Í mál við Hewlett Packard vegna meintra blekhylkjasvika

Kona nokkur í Bandaríkjunum hefur höfðað mál á hendur tölvuframleiðandanum Hewlett Packard og sakar hann um að forrita blekhylkin sem seld eru í prentarana frá framleiðandanum þannig, að þau hætti að virka á tilteknum degi, jafnvel þótt nóg blek sé enn í þeim, í því skyni að fá neytendur til að kaupa nýtt hylki.

Prentarar sem stóru tölvufyrirtækin framleiða eru í flestum tilfellum mjög ódýrir, en fyrirtækin hagnast á því að selja blekhylki í þá. Samkvæmt málshöfðuninni, sem lögð er fram í Kaliforníu, eru fyrirtækin með þessum hætti að brjóta á neytendum.

Hewlett Packard hefur gengist við því að í öllum blekhylkjum sem fyrirtækið framleiðir og selur sé örflaga, en segir hana einungis gegna því hlutverki að láta notendur vita hvenær þeir þurfi að skipta um hylki.

Lögmenn konunnar telja þetta ekki rétt. Þeir segja að flagan sé forrituð þannig að hún tilkynni of snemma að hylkið sé tómt, og geri það ónothæft eftir tiltekinn tíma, en þetta fái neytandinn ekki að vita.

Hewlett Packard er stærsti framleiðandi tölvuprentara í heiminum, og falli dómur í þessu máli málshöfðanda í vil gæti það kostað fyrirtækið milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert