„Greindargenið“ reynist torfundið

Gen sem tengjast greind ætla að reynast torfundin, að því er fram kemur í <i>New Scientist</i> á laugardaginn. Rannsókn á 7.000 sjö ára börnum leiddi ekki í ljós nein greinileg tengsl á milli mældrar greindar og einhverra tiltekinna erfðaþátta.

Rannsóknin var gerð á vegum Rannsóknarstofnunar í geðlæknisfræði í London. Fengnar voru niðurstöður úr greindarprófum barnanna sjö þúsund. Einnig voru tekin DNA-sýni úr börnunum, og var ætlunin að reyna að finna mun á genum þeirra er fengið höfðu háa einkunn á greindarprófi og þeirra sem fengið höfðu lága einkunn.

Leiddi þetta í ljós 37 tilbrigði sex gena sem virðast ráða einhverju um mismun á greind. En áhrif þessara gena greindust vart. Öll til samans geta þau vart útskýrt nema um eitt prósent greindarbreytileika milli einstaklinga.

Fyrri rannsóknir á tvíburum og ættleiddum börnum hafa veitt vísbendingar um að um helmingur breytileika í greind ráðist af uppeldis- og félagsþáttum, en hinn helmingurinn sé arfgengur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert