24 skólar búa yfir þráðlausu neti

Fartölva í notkun á kaffihúsi.
Fartölva í notkun á kaffihúsi. mbl.is/Ásdís

24 menntastofnanir hér á landi hafa tekið í notkun þráðlausa nettengingu frá því að verkefni um fartölvuvæðingu var hleypt af stokkunum fyrir tveimur árum. Þrír framhaldsskólar: Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskóli Suðurlands og Menntaskólinn á Akureyri, voru þróunarskólar í verkefni ráðuneytisins, en í framhaldi hafa fleiri menntastofnanir tekið þráðlaust net, frá 2-11 Mb-tengingu, í sína þjónustu.

Misjafnt virðist vera hve margir nemendur nýta sér þráðlaust net innan veggja skólanna eftir því hvort um er að ræða framhaldsskóla eða háskóla. Hjá menntaskólanum á Akureyri fengust þær upplýsingar að þriðjungur nemenda, í kringum 200, hafi átt fartölvur og nýtt sér þráðlaust net í skólanum í vor. Samkvæmt upplýsingum frá MA má búast við mikilli aukningu þegar skólinn hefst að nýju 15. september.

Hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands voru 153 nemendur með þráðlaus netkort í fartölvum sínum, en heildarfjöldi nemenda í FS er 820. Samkvæmt upplýsingum frá FS er búist við því að sú tala muni hækka eitthvað í þessari viku. Um 200 nemendur og kennarar eru með þráðlaus netkort hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, um 150 nemendur og um 50-60 kennarar. Heildarfjöldi nemenda við FÁ er tæplega 900. Í Háskólanum í Reykjavík eru um 300 þráðlaus netkort í notkun meðal nemenda og starfsliðs. Kennarar og starfslið er hins vegar sögð fremur nota borðtölvur eða tengieiningar (hub) sem eru víða í boði innan veggja HR. Um 1.300 nemendur eru í HR. Um 400 tölvur eru í Háskóla Reykjavíkur til afnota fyrir kennara og nemendur.

11 Mb þráðlaus nettenging

Verslunarskóli Íslands

Kvennaskólinn í Reykjavík

Menntaskólinn í Kópavogi

Menntaskólinn við Hamrahlíð

Menntaskólinn í Reykjavík (ekki fyrir nemendur)

Menntaskólinn á Akureyri

Menntaskólinn við Sund

Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Fjölbrautaskóli Suðurlands

Fjölbrautaskóli Suðurnesja

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra

Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi

Fjölbrautaskólinn Breiðholti

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum

Framhaldsskóli Austur-Skaftafellsýslu

Verkmenntakóli Austurlands

Verkmenntaskólinn á Akureyri

Háskólinn á Akureyri

Kennaraháskóli Íslands

Háskóli Íslands

Tækniháskóli Íslands

2 Mb þráðlaus nettenging

Viðskiptaháskólinn við Bifröst

Flensborg

Háskólinn í Reykjavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert