Staðfest að Einar verður ekki með á HM í Þýskalandi

Einar Hólmgeirsson mun ekki hrella markverði á heimsmeistaramótinu í handknattleik …
Einar Hólmgeirsson mun ekki hrella markverði á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í Þýskalandi eftir átján daga. mbl.is/Árni Torfason

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, hefur staðfest að stórskyttan Einar Hólmgeirsson leikur ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem hefst í Þýskalandi hinn 20. janúar nk. Liðband í þumalfingri vinstri handar Einars er slitið og var það staðfest við skoðun hjá Brynjólfi Jónssyni, lækni íslenska landsliðsins, í morgun. Einar fékk þungt högg á fingurinn í síðasta kappleik Grosswallstadt í þýsku 1. deildinni við Kiel á næst síðasta degi ársins. Líklegt að er Einar leiki ekki handknattleik næstu tvo mánuðina af þessum sökum.

Að sögn Einars Þorvarðarsonar þá er þumalfingur nafna hans mjög bólginn og og starfar ekki rétt. Það mun vera álit Brynjólfs læknis að best sé að gera aðgerð á fingrinum sem fyrst, en ákvörðun um það liggur væntanlega hjá Einari Hólmgeirssyni sjálfum og vinnuveitendum hans hjá þýska 1. deildarliðinu Grosswallstadt. Ekki liggur fyrir hver kemur inn í landsliðhópinn í stað Einars en sennilega verður það tilkynnt síðar í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert