Gunnar Heiðar til Eyjamanna

Gunnar Heiðar Þorvaldsson er kominn til ÍBV.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson er kominn til ÍBV. mbl.is/Golli

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður frá Vestmannaeyjum, hefur samið við ÍBV og verður löglegur með liðinu frá og með 15. júlí en hann hefur undanfarið ár spilað með Häcken í sænsku úrvalsdeildinni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem ÍBV sendi frá sér rétt í þessu. Gunnar nær ekki næsta deildaleik ÍBV sem er gegn ÍA 12. júlí en verður orðinn löglegur þegar Eyjamenn fá Fjölni í heimsókn sunnudaginn 19. júlí.

Gunnar Heiðar er 33 ára gamall Eyjamaður og lék með ÍBV frá 1999 til 2004 þar sem hann skoraði 37 mörk í 72 leikjum í efstu deild.

Hann lék með Halmstad í Svíþjóð 2004 til 2006 og varð þar markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar árið 2005. Þaðan fór hann til Hannover í Þýskalandi, Vålerenga í Noregi, Esbjerg í Danmörku, Reading á Englandi og Fredrikstad í Noregi.

Árið 2011 kom Gunnar aftur til Svíþjóðar og lék með Norrköping í hálft þriðja ár þar sem hann skoraði 34 mörk í 70 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann varð annar markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar árið 2012 með 17 mörk.

Haustið 2013 gekk hann til liðs við Konyaspor í Tyrklandi og lék þar eitt tímabil en kom til Häcken á miðju tímabili 2014 og hefur spilað þar síðan.

Gunnar á að baki 24 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur skorað í þeim 5 mörk. Þá lék hann 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert