„Frábær þrjú stig gegn góðu liði“

Leikmenn FH fagna sigrinum gegn Víkingi í kvöld.
Leikmenn FH fagna sigrinum gegn Víkingi í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var sigurreifur eftir 1:0 sigur liðsins gegn Víkingi í 18. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Kaplakrikavelli í kvöld. FH er nú með sex stiga forystu þegar fjórar umferðir eru eftir, en Heimir vildi ekki ganga svo langt með að segja að Íslensmeistaratitillinn væri í höfn.  

„Þetta voru frábær þrjú stig. Við spiluðum kannski ekkert frábærlega í leiknum, en áttum þó okkar kafla og duttum svo niður þar á milli. Við gerðum hins vegar nóg til þess að vinna þennan leik. Víkingur sköpuðu sér reyndar líka fín færi, enda eru þeir með flott lið. Víkingur hefur verið að spila vel upp á síðkastið. Þeir geta haldið boltanum vel og þeir eru menn í mörgum stöðum sem eru góðir í stöðunni einn á móti einum. Við lentum í basli með þá, “ sagði Heimir Guðjónsson í samtal við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

„Mér fannst við heilt yfir betri í þessum leik. Í seinni hálfleik lögðum við meiri áherslu á varnarleikinn og mér fannst það ganga ágætlega. Við náðum allavega að halda hreinu og tryggja okkur stigin þrjú. Við komumst oft í góða stöðu til að gefa fyrir í fyrri hálfleik. Það vantaði bara upp á að vanda fyrirgjafirnar, en það lagaðist í seinni hálfleik að mínu mati,“ sagði Heimir Guðjónsson enn fremur.

„Það er jákvætt að Breiðablik og KR hafi tapað stigum, en við verðum bara að hugsa um okkur sjálfa og nýta landsleikjahléið vel til þess að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn ÍBV sem verður klárlega erfiður leikur,“ sagði Heimir Guðjónsson að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert