„Sáttir upp að vissum mörkum

Gunnar Már Guðmundsson í leik með Fjölni á dögunum.
Gunnar Már Guðmundsson í leik með Fjölni á dögunum. Ófeigur Lýðsson

„Við erum ánægðir með okkar leik að hafa klárað þetta. Í dag snerist verkefnið okkar um að klára okkar leik og treysta svo á aðra. En eins og gerist stundum þegar maður þarf að treysta á aðra, þá dugir það ekki alltaf til,” segir Gunnar Már Guðmundsson miðjumaður Fjölnis eftir sigur liðsins gegn Breiðabliki í dag, 3:0. Með sigrinum nær Fjölnir 4. sætinu sem er besti árangur félagsins frá upphafi.

„Við vissum að þeir þurftu á einverjum tímapunkti að sækja til sigurs. Við ákváðum að leggjast aðeins aftur og leyfa þeim að halda boltanum. En eftir að við skoruðum fyrsta markið þá fannst mér þetta aldrei spurning. Mér fannst þetta raunar aldrei vera spurning, mér fannst þeir aldrei ógna okkur þannig lagað eins og þeir gerðu þegar við mættum þeim á heimavelli. En þegar við skoruðum fyrsta markið urðum við fegnir."

„Við erum samt svekktir að hafa tapað fyrir KR og Stjörnunni. KR-ingar voru betri en við, en við vorum miklu betri aðilinn á móti Stjörnunni. Þeir refsuðu okkur bara eftir föst leikatriði eins og við höfum lent oft í nú í sumar.”

Aðspurður hversu meðvitaðir leikmenn liðsins hafi verið um stöðuna í öðrum leikjum á meðan á leiknum stóð segir Gunnar:

„Við kíktum á stöðuna í hálfleik. Við vorum ekki að fá nein önnur skilaboð inn á völlinn. Ég hugsaði í raun aldrei út í það á meðan á leiknum stóð að við værum að komast í Evrópusætið á meðan á leiknum stóð. En þetta var góður sigur hjá okkur. Við förum upp fyrir Breiðablik og endum í 4. sæti. Sumarið á heildina er gott og við erum sáttir upp að vissum mörkum,” segir Gunnar.

Gunnar hefur skrifað undir tveggja ára samning og ætlar að halda áfram með félaginu á næsta ári að öllu óbreyttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert