Allir strákarnir skiluðu sínu

Helgi Kolviðsson aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Helgi Kolviðsson aðstoðarlandsliðsþjálfari. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Þetta var einmitt það sem við settum upp og strákarnir fylgdu því sem var bara meiri háttar,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur Íslands á Írum í Dublin í kvöld.

„Þetta er frábært og allir strákarnir skiluðu sínum hlutverkum alveg eins og við fórum fram á. Við vorum mjög agaðir í leiknum og þeir fengu nánast engin færi. Skipulagið hélt frábærlega, það fóru allir eftir því og það er ekki hægt að taka neinn sérstaklega út úr því,“ sagði Helgi.

Írar komust lítt áleiðis í leiknum og náðu vart að ógna marki Íslands að neinu ráði.

„Við vorum mjög skipulagðir og við komum í veg fyrir að þeir gætu spilað sinn leik. Þeir komu með lítið af fyrirgjöfum þar sem við náðum að trufla þá snemma, sem var einmitt það sem við settum upp og það gekk allt eftir. Við stjórnuðum hraðanum og náðum að draga þá meira út á völlinn sem þeim líkar ekki vel við. Við náðum að teygja á þeim sem kostaði mikið hlaup hjá þeim. Það var mjög gott hvernig við héldum ró okkar í þessum leik,“ sagði Helgi og var hinn ánægðasti.

Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu ásamt Aroni Sigurðarsyni.
Hörður Björgvin Magnússon fagnar marki sínu ásamt Aroni Sigurðarsyni. Ljósmynd/Tvitter-síða UEFA

Góður undirbúningur fyrir það sem koma skal

Þjálfarateymið gerði átta breytingar á byrjunarliði Íslands frá sigrinum gegn Kósóvó á föstudag og það er ljóst að breiddin er alltaf að aukast hjá íslenska liðinu.

„Það hefur sýnt sig í síðustu verkefnum, bæði í janúar og febrúar, að þeir strákar sem fengu sénsinn þar hafa náð að fylgja því vel á eftir. Það er mjög mikilvægt, maður veit að það getur alltaf mikið gerst í fótboltanum sama hvort það sé meiðsli eða annað. Það er því mikilvægt fyrir okkur að hafa breidd og aðrir strákar hafa sýnt það að þeir geta komið inn í þetta. Það er nauðsynlegt upp á framtíðina að gera,“ sagði Helgi.

Næsti mótsleikur Íslands er toppslagur við Króatíu í undankeppni HM á Laugardalsvelli í júní, en að fá vináttulandsleik gegn jafnsterkri þjóð og Írar eru er mjög mikilvægt á þessum tímapunkti.

„Það var frábært að fá þennan leik, spila tvo leiki núna með alla strákana með okkur og það var frábært að enda þetta verkefni svona. Góður undirbúningur fyrir það sem koma skal í sumar og það var einmitt það sem við vildum.“

Þetta var fyrsti sigur Íslands á Írum og það í 11. tilraun. Það má því segja að þessi sigur hafi verið ansi langþráður.

„Já, við vorum ekkert búnir að spá í því fyrir leikinn,“ sagði Helgi Kolviðsson og hló dátt í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert