Markmaðurinn fékk að tefja að vild

Gunnar Már Guðmundsson og Pablo Punyed í skallaeinvígi í leiknum …
Gunnar Már Guðmundsson og Pablo Punyed í skallaeinvígi í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Fjölnismenn sóttu eitt stig til Vestmannaeyja í kvöld þegar liðið gerði markalaust jafntefli við ÍBV. Gestirnir voru mun sprækari í leiknum og áttu þeir aragrúa af skotum á markið. Inn vildi boltinn ekki þökk sé Derby Carillo sem átti frábæran leik í marki ÍBV.

Gunnar Már Guðmundsson, leikmaður Fjölnis, þekkir hverja einustu þúfu á Hásteinsvelli en þar spilaði hann með ÍBV og starfaði á völlunum. Hann tók virkan þátt í sóknar- og varnarleik Fjölnis í leiknum og spjallaði við mbl.is eftir leik.

„Mér fannst við klaufar að klára ekki leikinn, við erum manni fleiri megnið af leiknum og fannst mér við því eiga að klára þennan leik.“

Fjölnismenn áttu mikið af skotum á markið í leiknum en fimm þeirra rötuðu á markið, sextán þeirra hittu ekki rammann og má því segja að gestirnir hafi verið í vandræðum á síðasta þriðjungi vallarins.

„Við vorum ekki nægilega beinskeyttir, annað hvort vorum við að skjóta í hann eða hann var svona hrikalega vel staðsettur.“

Hvað geta gestirnir lagað í sínum leik? Þeir spiluðu nokkuð vel en vörðust Eyjamenn ekki einnig vel?

„Við getum lagað endahnútinn, við þurfum að klára þetta betur og skapa okkur hættulegri færi en heilt yfir var leikurinn vel spilaður fyrir utan markið.“

Fjölnismenn fengu mikinn vind í bakið undir lok leiksins og fríska fætur inná í þeim Ægi Jarli Jónassyni og Birni Snæ Ingasyni, þetta gekk þó ekki upp hjá liðinu í dag.

„Nei þetta gekk ekki upp í dag, allan seinni hálfleikinn fékk markmaðurinn að liggja í grasinu eins og hann vildi og tefja að vild, mér fannst uppbótartíminn ekki í samræmi við það. Þeir náðu að drepa leikinn og við klaufar að klára ekki leikinn.“

Fjölnisliðið er nokkuð breytt frá síðasta tímabili en hvernig finnst Gunnari liðið í ár?

„Það voru miklar breytingar en ég held að við séum með þétt og nokkuð massíft lið, við höfum valkosti til að koma inn á, Birnir og Ægir koma sterkir inn og Bojan kemur inn ágætlega. Þetta verður bara betra hjá okkur.“

Vörn Fjölnismanna var nokkuð sterk í dag og fengu Eyjamenn ekki mikið af færum, þeir Hans Viktor Guðmundsson og Ivica Dzolan stóðu sig virkilega vel í öftustu línu.

„Þeir eru báðir öflugir varnarlega og góðir á boltann, við höfum litlar áhyggjur varnarlega,“ sagði Gunnar Már að lokum en Eyjamenn gerðu öftustu leikmönnum Fjölnis ekki lífið leitt í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert