Við vildum klára þetta

Þórður Ingason, markmaður Fjölnis, í baráttunni við Ásgeir Sigurgeirsson, KA.
Þórður Ingason, markmaður Fjölnis, í baráttunni við Ásgeir Sigurgeirsson, KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þórður Ingason átti frábæran leik í marki Fjölnis er liðið gerði 1:1 jafntefli við Val í 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Fjölnismenn voru yfir lengst af í leiknum eftir að Birnir Snær Ingason hafði skorað strax á 16. mínútu en Sigurður Egill Lárusson fiskaði vítaspyrnu og skoraði úr henni sjálfur á 83. mínútu til að tryggja Valsmönnum stig.

Þórður varði nokkrum sinnum mjög vel og var besti leikmaður vallarins en hann var að vonum svekktur að Fjölnismenn skyldu ekki ná að halda út.

„Ég er svekktur að fá þetta mark á okkur í lokin eftir að við vorum búnir að berjast vel. Við héldum að við myndum innbyrða þessi þrjú stig,“ sagði Þórður við mbl.is.

Fjölnismenn voru ósáttir með vítaspyrnuna sem Pétur Guðmundsson dómari dæmdi á 83. mínútu þegar Sigurður Egill féll í teignum.

„Það mátti margt í leiknum þannig að þetta var dálítið „soft“,“ sagði Þórður.

11 stig skilja liðin að í deildinni en Valur er á toppnum og Fjölnir í 9. sæti. Þrátt fyrir það spiluðu Fjölnismenn vel og Þórður var ánægður með baráttuna í dag.

„Eitt stig er gott en það góða við þennan leik er að það var meiri barátta í okkur. Það var kraftur og við vildum klára þetta og við getum tekið það í næsta leik. Það er hörku leikur næst [gegn KR], þeir eru í basli líka og við verðum að æfa vel og mæta klárir í Vesturbæinn,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert