Stjarnan með Englending til reynslu

Stjörnumenn eru í leit að liðsstyrk og aðstoðarþjálfarinn Brynjar Björn …
Stjörnumenn eru í leit að liðsstyrk og aðstoðarþjálfarinn Brynjar Björn Gunnarsson þekkir vel til hjá Reading, þar sem Aaron Kuhl var síðast á mála. mbl.is/Eva Björk

Stjarnan hefur áhuga á að styrkja leikmannahóp sinn þegar opnað verður fyrir félagaskipti í íslenska fótboltanum um miðjan næsta mánuð. Félagið hefur fengið enskan miðjumann til reynslu.

Það er Fótbolti.net sem greinir frá þessu en um er að ræða hinn 21 árs gamla miðjumann Aaron Kuhl, sem síðast var á mála hjá Reading á Englandi. Samkvæmt frétt í Reading Chronicle fékk Kuhl þau skilaboð frá Reading í janúar að krafta hans væri ekki óskað, en hann var þá nýkominn aftur úr láni hjá utandeildarliðinu Boreham Wood.

Kuhl náði að leika sex leiki með aðalliði Reading í ensku B-deildinni tímabilið 2014-2015, undir stjórn Nigel Adkins, en fékk ekki tækifæri eftir að Steve Clarke tók við liðinu.

Kuhl mun samkvæmt Fótbolta.net æfa með Stjörnunni í þessari viku. Vefmiðillinn bendir á þá staðreynd að Heiðar Ægisson, sem leikið hefur á miðjunni, sé á leið í háskólanám til Bandaríkjanna í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert